Tillögu að deiliskipulagi fyrir ofanflóðavarnir á Bíldudal hefur verið breytt. Þar sem ekki náðist samkomulag við landeigendur um varnir í landi Litlu-Eyrar hefur skipulagsgögnum verið breytt eftir auglýsingu þannig að skipulagssvæði og varnargarður hefur verið styttur þannig að varnir gangi ekki inn á land Litlu Eyrar, Vegbútur sem Minjastofnun benti á er því utan skipulagssvæðis. Heildarlengd garðsins fer úr 1000m í 800m og breytast því deiliskipulagsmörk, garður, vinnuvegir, stígar, áningarstaðir o.fl. í samræmi við það.
Tillagan var auglýst með athugasemdafresti til 4. mars 2025. Engar athugasemdir bárust frá almenningi en fyrir liggja umsagnir frá Minjastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt leiðréttum skipulagsgögnum.
Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við heimastjórn Arnarfjarðar að tillagan verði samþykkt.
Í lýsingu á tillögunni kemur eftirfarandi fram:
Heildarlengd varna er um 800 m. Gert er ráð fyrir að vatn eigi greiða leið í gegnum varnirnar og til sjávar en snjóflóð, krapaflóð, aurflóð og grjóthrun stöðvist á vörnunum.
Gert er ráð fyrir bröttum, 8-14 m háum þvergörðum neðan farvega þar sem hætta er talin á snjóflóðum.
Varnargarðarnir eru staðsettir nálægt byggð svo flóð nái að hægja á sér lítillega áður en þau lenda á
varnargörðum og aurkeilur neðan giljanna verði til þess að flóðin breiðist út áður en þau lenda á görðunum. Brött flóðhlið verður byggð upp með jarðvegsstyrkingakerfi. Gert er ráð fyrir að varnargarðurinn verji 26 íbúðarhús sem standa innan hættusvæða B og C. Við hönnun er gert ráð fyrir hreinsun krapa, aurs og grjóts úr skeringarrásum ofan garða og einnig hreinsun grinda við ræsi.