Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er 8. mars verður öllum boðið í bíó á Ísafirði kl. 14 þennan dag. Sýnd verður kvikmyndin Dagurinn sem Ísland stöðvaðist.
Bryndís Friðgeirsdóttir segir að um sé að ræða heimildarmynd um Kvennafríið sem konur tóku sér þann 24. október 1975 til að vekja athygli á mikilvægi sitt í íslensku atvinnulífi og krefjast breytinga í átt til jafnréttis.
„Allar götur síðan hafa konur komið saman um land allt þann 24.október og krafist breytinga. Í fyrra var metþátttaka víða um land og á Ísafirði var safnast saman á Silfurtorgi og haldið þaðan í kröfugöngu og skundað á baráttufund í Edinborgarhúsinu. Nú eru liðin 50 ár síðan konur lögðu niður launuð og ólaunuð störf á miðjum degi og stöðvuðu þannig samfélagið. Af því tilefni hafa samtök launafólks, kvenna, feminista, hinsegin fólks, fatlaðs fólks og fleiri tekið höndum saman og blásið til Kvennaárs 2025 þar sem kröfunni verður fylgt eftir með því að standa fyrir viðburðum, stórum sem smáum um allt land allt árið.“
Verkalýðsfélag Vestfirðinga styrkir sýninguna.

Myndirnar tók Matthildur Helgadóttir Jónudóttir á Ísafirði í fyrra.