Atvinnuvegaráðuneyti skoðar að banna hrefnuveiðar í Djúpinu

Samtök ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa ritað bréf til atvinnuvegaráðherra og farið fram á að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala og að ráðherrann setji reglugerð um það.

Í bréfinu kemur fram að tilefnið er að veitt hefur verið leyfi til fimm ára til hrefnuveiða og að hrefnuveiðimenn hafi lýst því yfir að veiðarnar muni fara fram í og við Ísafjarðardjúp. Aðeins sáust tvær hrefnu í Djúpinu við rannsóknir á síðasta ári sem fram fóru frá júní til september.

Nú hefur ráðuneytið ritað bréf og óskar umsagnar um tillögu um griðarsvæði hvala í Ísafjarðardjúpi.

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi málið í vikunni.

Bæjarráðið var sammála um að skoðaðir verði möguleikar þess að koma í veg fyrir árekstra milli hvalaskoðunar og hvalveiða. Bæjarráðið telur svæðisráð strandsvæðiskipulags Vestfjarða sé tilvalin vettvangur til að ræða umræddar tillögur og gefa umsögn.

Af því tilefni ítrekaði bæjarráðið áskorun á ráðherra um að skipa nýtt svæðisráð við fyrsta tækifæri.

Ísafjörður: svæðisráðið rétti vettvangurinn

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í síðustu viku sams konar erindi frá Sjóferðum ehf, þar sem óskað var eftir jákvæðum undirtektum Ísafjarðarbæjar, vegna erindis Samtaka ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, dags. 24. febrúar 2025, til ráðherra, þess efnis að Ísafjarðardjúp, allt frá mynni þess, verði skilgreint griðarsvæði hvala með reglugerð settri af ráðherra.

Bæjarráðið bókaði að Ísafjarðarbæjar geti „tekið undir að hvalveiðar og hvalaskoðun eigi illa samleið ef ekki er hugað að sambúð þessara atvinnugreina. Bæði minnkar það sem af er tekið, en einnig geta veiðarnar, löndun og verkun haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Ein leið er að stofna griðarsvæði eins og bréfritarar leggja upp með, en einnig má hugsa sér aðrar takmarkanir í tíma eða rúmi.“

Þá vísaði bæjarráðið til þess að svæðisráð um strandsvæðaskipulag væri rétti vettvangurinn til þess að fjalla um þetta efni:

„Í þessu samhengi er einnig tilefni til að minnast á frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða sem lagt var fram á Alþingi fyrr í mánuðinum. Þar er kveðið á um að svæðisráð geti starfað eftir að strandsvæðaskipulag hefur verið samþykkt. Bæjarráð telur eftir á að hyggja bagalegt að hvalveiðar hafi ekki teknar til skoðunar í svæðisskipulaginu sem samþykkt var fyrir nokkrum misserum. Svæðisskipulag er rétti vettvangurinn til að ákveða hvar og undir hvaða skilyrðum hvalveiðar eigi að leyfa.“

DEILA