Gunnar B. Sigurgeirsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Örnu ehf. Gunnar tekur við starfinu af Hálfdáni Óskarssyni, stofnanda félagsins, sem lætur nú af starfi framkvæmdastjóra að eigin ósk. Hálfdán mun áfram sitja í framkvæmdastjórn og leiða framleiðslu og vöruþróun félagsins í Bolungarvík. Arna hóf framleiðslu á mjólkurvörum í Bolungarvík árið 2013.
Í fréttatilkynningu segir að Gunnar komi með víðtæka reynslu úr rekstri leiðandi fyrirtækja á matvælamarkaði. Hann starfaði í 16 ár í Ölgerðinni, fyrst sem framkvæmdastjóri markaðssviðs en síðar sem aðstoðarforstjóri. Gunnar sinnti þar fjölbreyttum verkefnum, m.a. uppbyggingu eigin vörumerkja félagsins. Þar á undan starfaði hann sem markaðs- og sölustjóri Nóa Síríusar. Gunnar er með B.Sc. gráðu í matvælafræði og M.Sc. gráðu í hagfræði.
,,Það gleður mig að bjóða Gunnar velkominn til starfa sem framkvæmdastjóra Örnu. Gunnar hefur sýnt í sínum fyrri störfum að hann er öflugur leiðtogi með mikla þekkingu úr matvælageiranum. Þekking hans og reynsla mun styrkja félagið í áframhaldandi vexti á mjólkurmarkaði.” segir Hálfdán Óskarsson.
,,Arna hefur náð frábærum árangri á krefjandi markaði. Saga fyrirtækisins er virkilega skemmtileg og Hálfdán og samstarfsfólk hans hafa sýnt mikla framsýni og dugnað við að byggja það upp, m.a. með framúrskarandi vöruþróunarstarfi. Ég er fullur tilhlökkunar að vinna með stjórn og starfsfólki Örnu að framgangi félagsins, “ segir Gunnar B. Sigurgeirsson.
Arna ehf. er framsækið matvælafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á hágæða mjólkurvörum. Fyrirtækið er með framleiðslu í Bolungarvík og starfsstöð á Tunguhálsi í Reykjavík og hjá því starfa um 40 manns.