Verkefni fyrirtækisins Fine Foods Íslandica ehf og samstarfsaðilar hefur hlotið rúmlega 10 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu til að styðja við framkvæmd IceKelp verkefnisins 2024-2026.
Verkefnið er samstarf Fine Foods Íslandica ehf., Háskólaseturs Vestfjarða og Strandabyggðar, sem kemur að verkefninu sem opinber ábyrgðaraðili. Markmiðið er að hanna líkan fyrir sjálfbæra þararækt og blátt hagkerfi í dreifbýli.
Verkefnaáætlunin var kynnt af Fine Foods Íslandica ehf fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar í nóvember 2024 sem samþykkti að styðja við verkefnið. Meðal markmiða verkefnisins eru:
- Að eiga samskipti við hagsmunaaðila á staðnum með upplýsingafundum og opnum vinnustofum um þararækt.
- Að miðla fræðslu og þekkingu varðandi þararækt í Strandabyggð.
- Að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við þararæktun.
Þorgeir Pálsson sveitarstjóri er fulltrúi Strandabyggðar. Jamie Lee hjá Fine Foods Íslandica ehf. er framkvæmdastjóri verkefnisins og ber rekstrarlega ábyrgð á verkefninu. Hún, ásamt Bergsveini Reynissyni hjá Nesskel ehf. munu miðla sinni þekkingu, og veita þjálfun í verklegri framkvæmd.
Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir rannsóknum á líffræðilegum fjölbreytileika í kringum þararæktun og mun Alexandra Tyas, fjórða árs Ph.D. nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands stýra rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni.
Dr. Catherine Chambers er fulltrúi Háskólaseturs Vestfjarða og sér um að upplýsa hagsmunaaðila varðandi þær rannsóknir. Fine Foods Íslandica hefur unnið mikla rannsólknarvinnu að undanförnu og verður sú vinna notuð sem grunnur í rannsóknir Háskólaseturs Vestfjarða.
Styrkurinn mun standa undir mestum kostnaði við verkefnið og Fine Foods Íslandica ehf. mun einnig leggja fram um 2,5 milljónir króna til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem geta komið upp.
Íbúum Strandabyggðar verður boðið á opinn fund í Hnyðju fimmtudaginn 27. mars kl 16.00-17.30, þar sem verkefnið í heild sinni verður kynnt fyrir áhugasömum.