Í september 2018 var lögð fram á Alþingi tillaga um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Flutningsmenn voru þrír alþingismenn Norðvesturkjördæmis Guðjón S. Brjánsson (S), Haraldur Benediktsson (D) og Halla Signý Kristjánsdóttir (B).
Lagt var til að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung sem taki mið af vaxandi ferðamannastraumi, aukinni matvælaframleiðslu, iðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni felist langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum. Þá verði hagkvæmni staðsetningar metin með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðurhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði.
Í greinargerð er rakin ástæða þess að tillagan er flutt. Þar segir að annmarkar séu á notagildi flugvallar á Þingeyri og að Ísafjarðarflugvöllur sé barn síns tíma. Staðsetningin sé óheppileg, bæði aðflug og fráflug eru afar aðkreppt og í austlægum áttum getur orðið mjög misvinda. Finna þurfi því aðra og betri staðsetningu.
Lagt var til að að ráðist yrði í langtímaveðurfarsmælingar á þremur stöðum:
1. Í austanverðum Dýrafirði, t.d. á Mýrarmel eða utan við Gemlufall.
2. Í norðanverðu mynni Skutulsfjarðar, t.d. við hraðfrystihús HG.
3. Í innanverðu Ísafjarðardjúpi, t.d. við Reykjanes.
Fimm umsagnir bárust um málið. Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnaði því en vildi ekki binda sig við þá þrjá kosti sem nefndir voru heldur að gerð yrði ítarlegri greining á landfræðilegum aðstæðum sem gætu hentað flugvelli á Vestfjörðum.
Arnarnes
Landhelgisgæslan, LHG, vildi að auki við þá þrjá kosti sem lagðir voru að kannaðir verði kostir og
gallar flugvallastæðis við Arnarnes. Skoða mætti hvort til séu langtíma gögn um vindmælingar á Arnarnesi sem gerðar hafa verið þar um áratuga skeið.
LHG fagnaði því að verið væri að leggja drög að bættum flugsamgöngum á Vestfjörðum og sagðist binda vonir við að það geti haft jákvæð áhrif á hlutverk LHG.
Athyglisvert er það sem fram kemur í umsögn LHG um þyrlur. Þær séu hluti af björgunarhlutverki og sé stundum hægt að nota þær þegar sjúkraflugvélar duga ekki, en ekki alltaf og aðeins sé hægt að fá eldsneyti á þær á Ísafirði.
„Þyrlur eru í eðli sínu hægfleygari en flugvélar og skipta því vegalengdir milli eldsneytisstaða þær miklu máli. Nú er eldsneyti ekki lengur fáanlegt á Bíldudal og núverandi ísafjarðarflugvöllur því eini staðurinn á Vestförðum með eldsneyti fyrir þyrlur LHG. Ef ekki reynist fært inn á Isafjörð eru næstu flugvellir með eldsneyti þar af leiðandi Rif og Sauðárkrókur. Bein fluglína á þessa flugvelli er um eða yfir 30-40 mínútna flug fyrir þyrlu við bestu skilyrði þar sem fljúga þarf yfir fjöll og firði. I slæmum skilyrðum er oft á tíðum ekki hægt að fara þessar leiðir í beinni línu og þarf þá að fljúga með ströndu til að forðast áhrif veðra og vinda. Það getur þá allt að tvöfaldað fyrrgreindan tíma til að komast að eldsneyti.“
Viðraði Landhelgisgæslan þá hugmynd að hafa flugbraut á fyllingu við Arnarnes í suð- austanverðu minni
Skutulsfjarðar þar sem flugbraut gæti legið til NV/SA. Einnig mætti skoða þarna möguleika á þverbraut sem lægi þá frá norður enda fyrrgreindrar brautar í NA/SV og inn með hlíðum Skutulsfjarðar. Kosturinn væri að vel staðsettur flugvöllur niðri við sjávarmál í fjarðar minni gæti aukið aðgengi þyrlna og flugvéla til muna.
Öryggisnefnd félags íslenskra atvinnuflugmanna var jákvæð gagnvart tillögunni með sömu rökum og Landhelgisgæslan. Segir í umsögn þess að „Viðraðar hafa verið hugmyndir um flugbraut á fyllingu við Arnarnesið sunnanmegin í minni Skutulsfjarðar. Vert væri að kanna hvort veðurfar og staðsetning við Arnarnesið geti sýnt framá vænlegan kost fyrir flugvallarstæði.“
Þingmálinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og dagaði þar uppi.