Aldarminning: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Ingibjörg mamma mín fæddist í Reykjavík 28. mars 1925. Foreldrar hennar voru Gunnar Ólafsson, húsgagnasmíðameistri og bifreiðarstjóri næturlækna í Reykjavík í hálda öld, og Ragnheiður Bogadóttir húsfreyja og tannsmiður frá Búðardal. 

Foreldrar Gunnars voru Ólafur Ásbjarnarson frá Innri-Njarðvík, kaupmaður í Keflavík og Reykjavík, og Vigdís Ketilsdóttir frá Kotvogi í Höfnum.  Ólafur var sonur Ásbjarnar Ólafssonar í Njarðvík og Ingveldar Jafetsdóttur, Einarssonar borgara Jónssonar prests á Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Jafet Einarsson og Jón forseti voru bræðrasynir.  Þau Ásbjörn létu reisa Njarðvíkurkirkju fyrir eigin reikning.  Vigdís var dóttir Ketils Ketilssonar og Vilborgar ljósmóður Eiríksdóttur,  Ólafssonar á Litla-Landi í Ölfusi (Víkingslækjarætt).  Ketill og Vilborg létu reisa Hvalsneskirkju og greiddu sjálf kostnaðinn af byggingunni.

Ragnheiður var dóttir Boga bónda og kaupmanns Sigurðssonar, sem kallaður hefur verið faðir Búðardals og fyrri konu hans, Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen frá Flatey.     Bogi var sonur Sigurðar Finnbogasonar á Sæunnarstöðum í Hallárdal og Elísabetar Björnsdóttur á Þverá í Hallárdal, Þorlákssonar.

Foreldrar Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen voru Sigurður kaupmaður Johnsen í Flatey og Sigríður Brynjólfsdóttir, Bogasonar kaupmanns í Flatey, Benediktsen, og Halldóru Sigurðardóttur, en foreldrar Brynjólfs voru Bogi Benediktsson á Staðarfelli, höfundur Sýslumannaæva og eiginkona hans, Jarþrúður Jónsdóttir prests í Holti í Önundarfirði Sigurðssonar og Solveigar Ólafsdóttur lögsagnara á Eyri í Skutulsfirði Jónssonar (Staðarfellsætt).  Föðurafi og amma Boga á Staðarfelli voru Bogi Benediktsson í Hrappsey, eigandi prentsmiðjunnar þar 1774-1795, og Þrúður Bjarnadóttir “ríka” Péturssonar á Skarði og Elínar Þorsteinsdóttur (Skarðsætt).

Seinni kona Boga í Búðardal var Ingibjörg Sigurðardóttir, kennslukona frá Kjalarlandi í Vindhælishreppi, póstmeistari og símstjóri í Búðardal eftir lát manns síns, og voru þau Bogi systrabörn;  foreldrar hennar voru Sigurður  á Kjalarlandi i Vindhælishreppi Benjamínsson og Sigríður Björnsdóttir frá Þverá í Hallárdal.

Foreldrar mömmu byrjuðu búskap í húsinu nr. 4 við Vatnsstíg.   

Þegar Kristján X. og drottning hans stigu á land í Reykjavík  25. júní 1930, var mamma önnur tveggja stúlkna sem færðu hjónunum blómvönd. Hin var Sólveig Ásgeirsdóttir kaupmanns Ásgeirssonar í Reykjavík og Kristínar Matthíasdóttur.  Sólveig giftist síra Pétri Sigurgeirssyni, síðar biskupi Íslands. Þeir Páll Ísólfsson dómorganisti og Jón Halldórsson, ríkisféhirðir og stjórnandi Karlakórs KFUM, sáu um tónlistina við þetta tækifæri.  Jón var kvæntur móðursystur mömmu, Sigríði Bogadóttur frá Búðardal. Dóttir þeirra var Ragnheiður Ream, listmálari.

 Mamma minntist þess æ síðan, hve djúpt og innvirðulega hún hneigði sig fyrir kónginum á bryggjunni.  

Mamma gékk í Austurbæjaskólann. Sr. Bjarni dómkirkjuprestur fermdi hana; hún var í danstímum hjá Rigmor Hanson, lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum og var nemi á hárgreiðslustofunni hjá Línu í Ondúla í Aðalstræti. Þar var og Magnúsína Guðmundsdóttir.  Hún kom iðulega í heimsókn, þegar við áttum heima á Lokastíg 16. Þá leigðu foreldrar mínir íbúð af sæmdarhjónunum Steingrími Arnórssyni og Oddnýju Halldórsdóttur.

Önnur vinkona mömmu hét Dídí Ingvars.  Enn átti mamma þessar vinkonur: Sigríði Kjartansdóttur konu Tryggva járnsmiðs Benediktssonar, Ástu Jónsdóttur konu Árna Gestssonar í Glóbus, Ídu Ingólfsdóttur í Steinahlíð og tengdamóður sína, Ingveldi Rósenkranz.   

 Mamma var í sveit hjá Boga afa sínum og frænku í Búðardal.     

 26. júlí 1947 giftist hún Birni Rósenkranz Einarssyni. Sr. Bjarni  gaf þau saman. Afi og amma höfðu keypt helming hússins nr. 6a við Frakkastíg þar sem við mamma vorum fyrstu æviár mín. Pabbi og mamma tóku á leigu risíbúð í húsinu nr. 48 við Miklubraut.  Eigandur þess voru Þórður Þórðarson læknir og kona hans, Lousia Maria Mörk-Fischer frá Hamborg.  Kjördóttir þeirra hjóna var Kristrún Margarethe Dagmar Þórðardóttir.

 Mamma og pabbi eignuðust 5 börn:  Gunnar, Björn, Ragnar, Ragnheiði og Odd.

    Heima lagði mamma á konum hárið. Meðal þeirra voru Louisa, kona Þórðar læknis og Pálína Kjartansdóttir frá Vestra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi, síðar forstöðukona Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði. 

    Foreldrar okkar keyptu íbúð í Stighlíð 6 og seinna á Bókhlöðustíg 8.  

   Undir lok 6. áratugarins, rak mamma um skeið, með Elísabeti systur sinni, sem lærði snyrtifræði í Bandaríkjunum, hárgreiðslu- og snyrtistofu á neðri hæðinni á Frakkastíg 6a, og kölluðu Snyrtingu.  

     Mamma talaði aldrei um sjálfa sig, en brá hins vegar fyrir sig málsháttum.  Í þeim birtist þunglyndisleg viska, sem kynslóðir höfðu verið lengi að heyja sér, og gerði hún þessa glaðlyndu og hláturmildu konu að alvörugefnum spekingi. 

    Hún var ekki laus við að líta ögn stórt á sig, eins og fleiri af ættum hennar. Einu sinni, þegar hún leiddi mig við hönd sér upp Skólavörðustíg, gengum við fram hjá verslun með veiðivörur.  Ég fór þá að rella um það, að ég vildi fá veiðihjól;  þóttist ætla að fara að dorga í Hólmsá, sem breiddi úr sér eins og þúsund litlir speglar fyrir neðan sumarbústað afa míns og ömmu, Gunnars og Ragnheiðar.  Við fórum inn í búðina og kaupmaðurinn, laglegheita maður, lágvaxinn og þybbinn, nauðasköllóttur, sagði að veiðihjólið væri svo dýrt.  Þá sagði mamma:  Ég skal segja yður, að ég gæti keypt af yður alla búðina! 

     Hún var 26 ára, þegar ég fór í skóla.  Ég tók eftir því að mæður strákanna voru fullorðinslegri en hún,  báru hatta, sem fest hafði verið á  svokallað slör.  Ég spurði mömmu, hvort hún myndi fáanleg til þess að kaupa sér svona hatt.  Hún skreytti söguna með því, að ég hefði átt að segja, að ég vildi síður eiga mömmu, sem liti út eins og stelpa!

    Í skólanum átti ég að skrifa ritgerð heima.  Ég sat og nagaði blýantinn, en mamma skrifaði stílinn fyrir mig.   Kennarinn las hann upphátt fyrir bekkinn. Þar sagði frá því, að Vigdís, amma mömmu, hefði spurt strætisvagnabílstjóra, hvort þetta væri Njálsgata-Gunnarsbraut, en hann svarað:  Nei, þetta er strætisvagn.    

    Ef ég spurði mömmu, hvað hún vildi fá í afmælis- eða jólagjöf, svaraði hún ófrávíkjanlega: Koss og gott skap.   

    Mamma byrjaði bænir sínar ætíð svona:  “Elsku, góði Guð og allir englarnir!  Viljið þið passa…..”(og taldi svo upp nöfn).   

     Mamma vann árum saman hjá Bjarna Konráðssyni lækni, en á árum áður höfðu þau pabbi leigt neðri hæðina í húsi hans nr 21. við Þingholtsstræti.  Þær Ragnhildur, kona Bjarna, urðu perluvinkonur.

    Hún vann og lengi við að hafa til kaffið handa kennurum Menntaskólans í Reykjavík; þau Guðni rektor voru bæði komin af Jafet Einarssyni Johnsen, gullsmið í Reykjavík, og Þorbjörgu Nikulásdóttur.  

     Mamma dó 14. nóvember 1999.   Útförin var að ósk hennar haldin í kyrrþey, að þeim einum viðstöddum, sem hún hafði ákveðið að fengju að fylgja. 

    Guð blessi minningu minnar góðu móður, Ingibjargar Gunnarsdóttur.  

Gunnar Björnsson

DEILA