Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt 150 þús. kr. styrk til að hanna og prenta bingóspjöld með gripum sem tengjast sögu á sunnanverðum Vestfjörðum.
Hugmyndin er að sækja innblástur í gripi sem tengjast sögu Sunnanverðra Vestfjarða og hvetja þannig börn og fullorðna, sem og erlenda ferðamenn, til þess að skoða umhverfið hér, fá áhuga á sögunni, því hvernig lífið var hér á árum áður, þjóðsögum og fleiru.
Bingóspjöldin verða prentuð á góðan en umhverfisvænan pappír þannig að þau séu eiguleg en verði ekki hent í ruslið eftir notkun. Þannig geta bingóspjöldin t.d. orðið að eigulegri minningu frá heimsókn ferðamanna á Sunnanverða Vestfirði.
Áætlað er að bingóspjöldin verði prentuð á fjórum tungumálum: íslensku, ensku, frönsku og spænsku. Áætlað er að prenta 4 mismunadi bingóspjöld, tvö sett fyrir yngri börn (150 stk.) og 2 sett fyrir eldri börn og fullorðna (200 stk.).
Bingóspjöldin verða ekki seld heldur verða gefins.
Umsjónaraðilar verkefnisins eru Camille Jeanne Salmon og Birta Ósmann Þórhallsdóttir. Camille er
hugmyndasmiður bingóspjaldanna og mun sjá um hönnun og textagerð en Birta mun sjá um að teikna upp gripina og prentun á bingóspjöldunum. Prentun mun fara fram á prentverkstæði Skriðu á Patreksfirði.