Vesturbyggð: áhyggjur af ástandi vega

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um ástand vega. Samþykkt var eftirfarandi ályktun:

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandi og viðhaldsleysi vega á Vestfjörðum og Vesturlandi. Nú er svo komið að þungatakmarkanir eru í gildi á vegum og hefur bæjarstjórn verulegar áhyggjur af því að þetta ástand verði viðvarandi. Það hefur alvarleg neikvæð áhrif á atvinnulíf og daglegt líf íbúa á svæðinu. Þessar takmarkanir hamla flutningi á vörum og þjónustu, sem leiðir til aukins kostnaðar fyrir fyrirtæki og skerðir samkeppnishæfni þeirra.

Samgöngur hafa löngum verið erfiðar á Vestfjörðum og sú staða sem nú er komin upp er með öllu óásættanleg. Slæmar samgöngur draga úr aðdráttarafli Vestfjarða fyrir ný fyrirtæki og fjárfestingu, en góðar samgöngur eru lykilatriði fyrir efnahagslega uppbyggingu og þróun atvinnulífs.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og fjármálaráðherra að forgangsraða endurbótum á vegakerfi Vestfjarða og Vesturlands. Nauðsynlegt er að tryggja viðeigandi fjármagn til reglubundins viðhalds og uppbyggingar samgöngumannvirkja.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur stjórnvöld til tafarlausra úrbóta.“

DEILA