Vestri var að styrkja hópinn sinn með sænskum vinstri bakverði sem er með reynslu úr úrvalsdeildunum í Noregi og Svíþjóð.
Sá heitir Anton Kralj og er 26 ára gamall. Hann var lykilmaður í yngri landsliðum Svía þar sem hann spilaði 35 leiki í heildina en tók aldrei stökkið upp í A-landsliðið.
Anton lék á láni hjá GIF Sundsvall í sænsku B-deildinni á síðustu leiktíð og kemur til Vestra á frjálsri sölu frá Hammarby.
Anton á leiki að baki fyrir Hammarby og Degerfors í efstu deild sænska boltans auk þess að hafa spilað fyrir Sandefjord í Noregi.
Anton er sókndjarfur bakvörður og getur einnig spilað á vinstri kanti.
![](https://www.bb.is/wp-content/uploads/2025/02/Guy-Smit-819x1024.jpg)
Fyrr í mánuðinum gekk Hollenski markvörðurinn Guy Smit í raðir Vestra og mun verja mark félagsins í sumar.
Hann er 29 ára og kom fyrst til Íslands árið 2020 og lék með Leikni R. í fyrstu deild. Guy var á þeim tíma langbesti markvörður landsins og var það svo að hann gekk til liðs við Val. Hann hefur síðan einnig spilað með ÍBV á láni frá Val og á síðustu leiktíð lék hann með KR. Guy átti erfitt uppdráttar framan af móti eins og allt KR liðið en með þjálfarabreytingum fór KR liðið að spila betur og var Guy frábær seinni hluta mótsins.