Vegleg gjöf Lionsklúbbs Ísafjarðar til Eyrar, hjúkrunarheimilis á Ísafirði

Frá athöfninni í gær. Mynd: Lionsklúbbur Ísafjarðar.

Lionsklúbbur Ísafjarðar var stofnaður 25. júní 1967 og hefur því verið starfandi í hartnær 58 ár. Hann hefur staðið fyrir margs konar fjáröflunum þessi ár. Selt heimilisvörur, verkað harðfisk. Bleikjusala var sameiginlegt verkefni Lionsklúbba á norðanverðum Vestfjörðum. Fengu félagsmenn viðurkenningu fyrir góðan árangur af sölunni og var fjallað um hana í Chicago. Við fengum um árabil lánað skipið Guðnýju til fiskveiða og var aflanum jafnan landað í Norðurtanga. Aflaðist undantekningalaust vel undir styrkri skipstjórn Kristjáns Jónssonar. KLúbburinn naut sérstakrar velvildar Sigurðar Sveinssonar frá Góustöðum útgerðarmanns og einnig kaupanda aflans, Norðurtangans. Andvirðið rann óskipt til vistheimilsins Bræðratungu.

Siðustu 25 ár hefur aðal fjáröflun verið skötuverkun sem er, eins og allir vita, ómissandi á Þorláksmessu. Við þökkum íbúum Ísafjarðarbæjar og annars staðar fyrir að taka „Lionsskötunni“ sem og öðrum fjáröflunum okkar sérlega vel. 

Andvirðinu hefur verið varið til margvíslegra mála einkum þó til heilbrigðisstofnanna, heimilis aldraðra og þroskaheftra, Rauða krosssins og auk þess höfum við notið aðstoðar Ísafjarðarkirkju til hjálpar þeim sem veikindi eða slys hafa hrjáð.

 Auk þessa studdum við, ásamt Ísafjarðarbæ og fleirum, vini okkar Færeyinga um eina miljón þegar þeir urðu fyrir tjóni í óveðri á Suðuroy. Andvirðið var nýtt til kaupa á bifreið til  að aka eldri borgurum á hjúkrunarheimili í Vági. 

Í gær gáfu félagar í Lionsklúbbi Ísafjarðar kr. 600.000 til hjúkrunarheimilins Eyrar til kaupa á tveimur stórum sjónvarpsskjám sem kemur sér einkar vel fyrir íbúa stofnunarinnar. Auður Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri veitti gjöfinni móttöku og kunni Lionsklúbbi Ísafjarðar bestu þakkir fyrir þessa hugulsömu gjöf.  

Kristján Pálsson, formaður.

DEILA