Samtök iðnaðains og félag ráðgjafarverkfræðinga hafa gefið út skýrslu um innviði landsins. Tekur hún til vegakerfis, veitukerfa,flugvalla, hafna, fasteigna og raforkukerfis.
Í inngangi skýrslunnar segir að markmið skýrslunnar sé að kalla fram upplýsta umræðu og nauðsynlegar úrbætur þannig að innviðir landsins geti staðið undir hlutverki sínu og efli samkeppnishæfni. Auka þurfi fjárfestingu og fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum, einfalda ferli framkvæmda og horfa til fjölbreyttari leiða í uppbyggingu og rekstri innviða.
ástandið óásættanlegt
Ástand einstakra innviða er sagt misjafnt. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru vegakerfið og fráveitukerfið í verstu ásigkomulagi, bæði með einkunnina 2, sem þýðir að ástandið er óásættanlegt og þörf á tafarlausum aðgerðum. Mikilvægt er að hafa í huga að vegakerfið er lífæð íslensks samfélags, bæði fyrir atvinnulíf og almennar samgöngur, og ónógt viðhald þess getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild.
Um vegakerfið segir að endurstofnvirði þjóðvegir landsins sé 1.200 milljarða króna og að uppsöfnuð viðhaldsskuld sé 200 milljarðar króna. Sveitarfélagavegir eru metnir á 250 – 310 milljarðar króna að endurstofnvirði og uppsöfnuð viðhaldsskuld er 65 – 90 milljarðar króna.
Vegakerfinu er svo lýst í skýrslunni:
Vegakerfi Íslands er tæplega 26 þús. km langt og þar af eru um 8 þús. km með bundnu slitlagi. Vegakerfi landsins er skipt í þjóðvegi, 12.900 km, sem eru á forræði Vegagerðarinnar og sveitarfélagsvegi, 13.100 km, sem eru vegir innan þéttbýlis sem ekki teljast þjóðvegir og eru þeir í umsjá sveitarfélaga. Þjóðvegakerfinu er skipt í vegflokka sem eru; stofnvegir 4.300 km, tengivegir 3.500 km, héraðsvegir 2.600 km, landsvegir 2.000 km og stofnvegir um hálendi 500 km. Á þjóðvegum landsins er bundið slitlag á um 5.900 km en 7.000 km eru malarvegir. Á vegum á forræði sveitarfélaga er bundið slitlag á um 2.500 km en malarvegir eru 10.600 km. Á Íslandi eru um 1.200 brýr og af þeim eru rúmlega helmingur einbreiðar og lengd þeirra um 15 km. Tæpur helmingur eru tvíbreiðar brýr og lengd þeirra um 15 km. Árið 2023 voru 29 brýr á hringveginum einbreiðar og stefnt er að því að engin einbreið brú verði á hringveginum um 2040. Fjöldi jarðganga er 14 og lengd þeirra er um 64 km.
viðhaldsskuld þjóðvega
Um mat á viðhaldskuld þjóðvega er vitnað til mats Vegagerðarinnar á stöðunni:
Vegagerðin hefur áætlað að viðhaldsskuld á öllu vegakerfi Vegagerðarinnar sé varlega metin að minnsta kosti um 200 milljarðar króna. Mikilvægt er að ráðast í uppfærslu á vegakerfinu sjálfu, breikkun brúa, breikkun vega og jarðganga sem er í raun að hluta til endurbygging kerfisins. Með þessu má áætla að
brýr, jarðgöng og uppfærsla á vegakerfinu í rétta vegtegund miðað við þróun umferðar, sé viðhaldsþörfin varlega áætluð tvöföld þessi upphæð.
Til að tryggja viðunandi burðargetu þjóðvega miðað við núverandi mælingar þyrfti að endurnýja 190 km á ári. Þá yrði fjárþörf verkefnisins 10 milljarðar króna á ári. Fjárveitingar síðustu ára hafa legið á bilinu 16–20% af reiknaðri fjárþörf. Árleg viðhaldsþörf bundinna slitlaga er 24 milljarðar króna og árleg viðhaldsþörf
malarslitlaga 3 milljarðar króna. Vegagerðin áætlar að árleg viðhaldsþörf til að uppfæra jarðgöng vegna aukinna alþjóðlegra krafna verði um 1 milljaður króna og árleg viðhaldsþörf brúa verði einnig um 1 milljarður króna á ári.