Þróun vegakerfisins

Á rúmri öld sem unnið hefur verið að vegagerð á Íslandi hefur vegakerfið lengst til muna.

Árið 1917 taldist það um 500 km. Átta árum seinna voru bílvegir orðnir 612 km og kerruvegir 712 km.

Eftir stríð, árið 1946 töldust þeir um 4.400 km. Á þeim árum var farið að líta til þess að ekki aðeins lengja vegakerfið og byggja fleiri brýr heldur einnig að styrkja vegi og byggja þá upp úr snjó.

Það verk hélt áfram fram yfir árið 1970. Stór varða á leið nútíma vegakerfis fólst í því að ljúka Hringveginum með gerð brúa á Skeiðarárssandi árið 1974. Má segja að vegakerfið hafi þá í aðalatriðum verið komið í það horf sem það er nú.

Verkefnin hurfu ekki og upp úr 1970 var áherslan lögð á bundið slitlag á malarvegina. Stórt átak í þeim efnum var gert upp úr 1980 þegar sum árin var lagt meira en 300 km af bundnu slitlagi, með góðri lausn fyrir umferðarminni íslenska vegi, sem fólst í klæðingunni. Hún dugði vel fyrir þá umferð sem var og þar sem hún var mun ódýrari en malbikun mátti komast margfalt lengra en ella. Jafnvel var nýtt einbreitt slitlag til að komast sem lengst. Þjóðin þráði að losna við holur og ryk.

Árið 1994 var búið að leggja bundið slitlag á 2.840 km af þjóðvegum landsins. Í dag er svo komið að tæplega 6.000 km af 13.000 km þjóðvegakerfi er nú lagt bundu slitlagi.

Þrátt fyrir að stórt hlutfall sé enn malarvegir þá fer um 97 prósent allrar umferðar um vegi með bundnu slitlagi og í auknum mæli á malbiki.

Áhersla er lögð á að lengja malbikskafla á kostnað klæðingar enda kallar aukin umferð á það.

DEILA