Þorbjörn tekur við af Örnu Láru í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Sex efstu frambjóðendur á Í-listanum árið 2022. Nanný Arna Guðmundsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir fyrir aftan og Gylfi Ólafsson, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Magnús Einar Magnússon og Þorbjörn Halldór Jóhannesson fyrir framan.

Þorbjörn Halldór Jóhannesson hefur tekið sæti Örnu Láru Jónsdóttur í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar en Arna Lára tók nýverið sæti á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi síðastliðinn fimmtudag tillögu bæjarstjóra um að veita Örnu Láru lausn frá störfum sínum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að hennar eigin ósk, til loka kjörtímabils.

Arna Lára tók fyrst sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir Í-listann þann 15. júní árið 2006 og hefur verið bæjarfulltrúi allar götur síðan. Í bréfi hennar til bæjarstjórnar segir: 

„Það hefur verið mér sannur heiður að fá að starfa sem bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar í 19 ár að fjölbreyttum verkefnum og vera treyst fyrir mikilvægum störfum fyrir hönd sveitarfélagsins. Ég er þakklát fyrir allt góða samstarfsfólkið sem ég hef fengið að starfa með í gegnum árin og vil þakka fyrir samstarfið af heilum hug.“ segir Arna Lára

DEILA