Suðureyri: gera upp gamlan bát

Frá undirritun samningsins um viðgerð á bátnum.

Hollvinasamtök Ágústu ÍS 65 á Suðureyri, sem er á lóð leikskólans á Suðureyri undirituðu á sunnudaginn samning við Trésmið ehf um viðgerð á bátnum. Magnús Alfreðsson mun sjá um smíðavinnuna. Skrifað var undir samninginn í Hæstakaupstaðarhúsinu á Ísafirði en hjónin Magnús og Áslaug hafa gert það upp af miklum myndarskap og er húsið mikil bæjarprýði fyrir Ísafjörð segir í færslu Hollvinasamtakanna.

Áætlað er að hefja vinnuna við viðgerðir á bátnum sem fyrst og að verkinu verði lokið ekki seinna en 1.júlí 2025. Í framhaldinu verður báturinn málaður og sjálfboðaliðar fengnir í það verk.

Hollvinasamtökin fengu í desember síðastliðnum styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða til að setja upp sögu- og myndaskilti á leikvallarvegginn þar sem sögu bátsins og leikvallarins á Suðureyri eru gerð skil. Verkefnið fékk nafnið HAF OG HAMINGJA. Styrkurinn er 500.000 kr.

Ágústa ÍS 65 með jólaskreytinguna.

Myndir: Hollvinasamtökin.

DEILA