Sterkari Strandir: 73 m.kr. í styrki

Fimmtudaginn 20. febrúar var haldinn lokaíbúafundur verkefnisins Sterkar Strandir. Verkefnið hófst í júní 2020 eftir nokkrar tafir vegna heimsfaraldurs og hefur staðið í á fimmta ár.

Á fundinum fór fráfarandi verkefnisstjórinn, Sigurður Líndal, yfir nokkur atriði og skýrði framtíðarsýn verkefnisins og framgang í vinnu að markmiðum verkefnisins. Þar er vinna mislangt komin en ýmis mál hafa þokast vel áfram eða markmiðum náð. Einnig ræddi hann um frumkvöðlaverkefni sem hafa hlotið styrki úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda á árunum 2020-2024. Veittir voru 73 styrkir til frumkvæðisverkefna og heildarupphæðin er 73.020.000 krónur. Vinnu við þessi verkefni er að mestu lokið.

Niðurstöður íbúakönnunar

Gerð var meðal íbúa í Strandabyggð um mánaðamótin janúar – febrúar 2025. Í könnuninni var markmiðið að kanna viðhorf íbúa til atvinnu- og búsetumála í sveitarfélaginu, auk upplifunar af verkefninu Sterkar Strandir. Í svörunum kom meðal annars fram að íbúum líður almennt vel í Strandabyggð og mikill meirihluti telur líklegast að viðkomandi muni búa þar áfram. Segja má að viðhorf til verkefnisins Sterkra Stranda séu sumpart blendin. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér í kynningu Byggðastofnunar.

Hringt var í alla íbúa Strandabyggðar með skráð símanúmer og þeir beðnir um netföng til að fá könnunina senda. Könnunin var send á 94 einstaklinga (sem gáfu upp netföng) og 83 svöruðu henni.

Strandabyggð hefur nú tekið við verkefninu og annast eftirfylgni og mun leiða verkefnið áfram.

Myndir: Byggðastofnun.

DEILA