Thursday 10. April 2025

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson á leið til Noregs

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson hefur verið selt til Holberg Shipping í Noregi og kveður því Hafrannsóknastofnun og heimahöfn í Hafnarfirði eftir ríflega 54 ára dygga þjónustu.

Smíðasamningur var undirritaður 11. mars 1969, skipinu hleypt af stokkunum 27. apríl 1970 en það kom til Reykjavíkur þann 17. desember 1970.

Vel var vandað til smíði Bjarna Sæmundssonar og í skipinu var ýmis nýr búnaður sem ekki hafði áður verið settur í íslensk skip. Í því eru dísel rafstöðvar sem knúa rafmótor sem knýr skipið áfram. Vélarrúm skipsins er sérstaklega einangrað og vélar og rafalar á sérstöku gúmmíundirlagi til þess að minnka hávaða og titring. Þessi búnaður var á sínum tíma alger nýlunda í íslensku skipi og síðan hefur hann aðeins verið settur í eitt annað íslenskt skip, þ.e. hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson sem kom nýtt til landsins árið 2000. Innleiðing þessarar tækni á sínum tíma leiddi til töluverðs sparnaðar á olíunotkun.


Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknaleiðangur þann 6. janúar 1971. Skipið hefur gengt fjölþættum verkefnum í sambandi við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum.

Auglýsing

Nýtt á BB

Fleiri fréttir