Ráðherranefnd um öldrunarþjónustu

Ráðherranefnd um öldrunarþjónustu kom í vikunni saman til síns fyrsta fundar. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samhæfingu meðal þeirra ráðuneyta sem vinna að málefnum eldra fólks.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra stýrir nefndinni en í henni eiga einnig fast sæti Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra.

„Ég bind miklar vonir við þessa ráðherranefnd sem er nýlunda í stjórn málaflokksins. Hún endurspeglar þá miklu áherslu sem ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins leggjur á málefni eldra fólks,” sagði forsætisráðherra í tilefni fyrsta fundar nefndarinnar.

Forsætisráðherra ítrekaði að á sama tíma og þjóðin eldist og áskoranir fylgi því, sé eldra fólk mikilvægir þátttakendur í samfélaginu, það sé almennt hraustara en áður og meginþorri þess búi í eigin húsnæði.

Á fyrsta fundi nefndarinnar var uppbygging hjúkrunarheimila sérstaklega á dagskrá og var fjallað um fyrirséða þörf, stöðu framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hjúkrunarheimila og fjármögnun hennar og þjónustunnar.

Ráðherranefndin leggur áherslu á að ekki verði frekari tafir á nauðsynlegri uppbyggingu og fjárfestingu til framtíðar. Því verður nú framkvæmdaáætlunin endurskoðuð til samræmis við þörf og tillögur að fjármögnunarleiðum kannaðar. 

DEILA