Oddi styrkir kaup á nýju björgunarskipi fyrir sunnanverða Vestfirði um 30 m.kr.

Ólafur Haraldsson og Smári Gestsson stjórnarmenn Björgunarbátasjóðs Vestur-Barðastrandasýslu ásamt Skildi Pálmasyni framkvæmdastjóra Odda hf. Mynd:aðsend.

Útgerð Odda hf. á Patreksfirði hefur ákveðið að styrkja Björgunarbátasjóð Vestur-Barðastrandasýslu um 30 milljónir til endurnýjunar á björgunarskipi fyrir svæðið. Hjá Odda hf. starfa 15 sjómenn og er því um að ræða upphæð sem samsvarar 2 milljónum á hvern sjómann.

,,Sjávarútvegsfélag eins og Oddi hf. byggir alla sína starfsemi á sjósókn þar sem sjómenn og skip félagsins eru í aðstæðum sem oft geta verið erfiðar. Það er okkur því gríðarlega mikilvægt að á svæðinu sé öflugt björgunarskip sem eykur öryggi sjómanna og hægt er að fá til aðstoðar þegar óhöpp eiga sér stað.

Í litlum sjávarplássum er mikilvægt að geta sýnt sterka samfélagslega ábyrgð og því er það með mikilli ánægju sem við í Odda hf. tökum þátt í þessu verkefni‘‘, segir Skjöldur Pálmason framkvæmdastjóri Odda hf. sem vill hvetja önnur fyrirtæki sem byggja afkomu sína á starfi sjómanna, til að koma myndarlega að þessu mikilvæga verkefni.

DEILA