Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF 300 er nú á heimleið. Skipið var afhent í Vigo á Spáni sl. föstudag 21. febrúar, tæpum þremur árum eftir að samningur milli íslenska ríkisins og spænsku skipasmíðastöðvarinnar Astilleros Armon um smíði skipsins var undirritaður
Áhöfn skipsins hefur unnið að því að gera skipið klárt fyrir heimför en lagt var úr höfn frá Vigo þriðjudaginn, 25. febrúar.
Gert er ráð fyrir að heimsiglingin taki um það bil fimm daga en hún gæti þó dregist á langinn þar sem veðurspá er ekki hagstæð síðari hluta þessarar viku. Því er ekki ljóst nákvæmlega hvenær Þórunn leggur að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.
Eins og kunnugt er mun Þórunn taka við af rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni sem hefur sinnt hafrannsóknum allt frá árinu 1970. Búið er að ganga frá sölunni á honum og verður hann afhentur nýjum eigendum á laugardag.
Eins og kunnugt er, er nýja skipið nefnt í höfuðið á frumkvöðli rannsókna á frumframleiðni í hafinu og einum helsta svifþörungafræðingi landsins, Þórunni Þórðardóttur (1925 – 2007) en hún hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun, sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild. Þórunn vann mest allan sinn starfsaldur sem deildarstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, þar sem hún bæði hóf og stýrði íslenskum svifþörungarannsóknum um 40 ára skeið.

