Nýtt deiliskipulag fyrir Suðurtanga á Ísafirði hefur verið auglýst í stjónartíðindum og hefur tekið gildi.
Í nýju deiliskipulagi Suðurtanga á Ísafirði eru samtals 21 nýjar lóðir. Búið er að gera samkomulag um úthlutun tveggja lóða. Annars vegar við Þrym hf. um lóðina Hrafnatanga 2 og hins vegar við Hraðfrystihúsið – Gunnvöru hf. og Háfell ehf. um Ásgeirsgötu 2. Þá er einnig gert ráð fyrir slökkvistöð við Suðurtanga 1 og Hampiðjan hf. hefur fengið Skarfatanga 6 úthlutað.
200 milljónir króna í gatnagerð
Í minnisblaði sem lagt var fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðabæja kemur fram að talsverður fjöldi lóðanna er ekki úthlutunarhæfur fyrr en að lokinni gatnagerð, á það sérstaklega við lóðir sem standa við Suðurtanga. Gert er ráð fyrir að kostnaður við gatnagerðina hlaupi á rúmlega 200 milljónum króna.
Kerecis hf. hefur lýst yfir áhuga á lóðum á Suðurtanga og hefur þar verið horft til lóðanna við Suðurtanga 24 og 26 og hefur Ísafjarðarbær staðið fyrir jarðvegsrannsóknum á lóðunum.
Einnig hefur komið til tals að Kerecis fái lóðina Æðartanga 4-6 en ekki liggur fyrir samkomulag við fyrirtækið um úthlutun og endanlega staðsetningu. Hábrún ehf. var með vilyrði um lóð við Hrafnatanga í eldra deiliskipulagi en óvíst er með áform fyrirtækisins og hvaða áhrif breytt skipulag hefur á þau.
Fjórar lóðir Hrafnatangi 4 og 6, og Æðartangi 9 og 11 eru tilbúnar til úthlutunar og var bæjarstjóra falið að setja þær á lista yfir lausa lóðir. Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur heimild til fullnaðarákvörðunar um málið.