Í Mottumars, árlegu átaki Krabbameinsfélagsins, fer fram vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og aflar félagið um leið fjár fyrir mikilvæga starfsemi Krabbameinsfélagsins.
Í ár er áhersla Mottumars á tenginguna á milli lífsstíls og krabbameina. Krabbameinsfélagið vill í Mottumars vekja athygli á að bæði óheilbrigðar og heilbrigðar lífsvenjur verða til á löngum tíma. Skilaboðin eru einföld. Lífsstíll er ekkert til að grínast með, hann er þvert á móti dauðans alvara.
Að minnsta kosti þriðja hvert krabbameinstilvik tengist lífsstíl. Þó að enginn sé öruggur er hægt að draga úr líkum á krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Þar getum við svo sannarlega gert betur og tilfinningin er að of margir karlmenn taki lífsstíl sinn ekki nógu alvarlega. Því viljum við breyta.
Óheilsusamlegur lífsstíll er summan af mörgum litlum, slæmum ákvörðunum sem teknar eru hversdagslega yfir langan tíma. Hver og ein ákvörðun vegur ekki þungt en samanlagt geta þær skaðað heilsuna og meðal annars aukið líkurnar á krabbameinum.

Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló.
Hönnunin byggir á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn.
Allur ágóði af sölu Mottumarssokkunum rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum.