Milljarður í húsnæðisstuðning í janúar

Þann 31. janúar 2025 greiddi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um 1.038 milljónir króna í húsnæðisstuðning til leigjenda vegna leigu í janúar.

Þessar greiðslur styðja þúsundir heimila víðs vegar um landið og miða að því að draga úr húsnæðiskostnaði efnaminni leigjenda og auka húsnæðisöryggi þeirra.

Húsnæðisbætur, sem eru stór hluti þessa stuðnings, er ætlað að lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalægri leigjenda til að styðja þá við að standa straum af leigugreiðslum. HMS greiddi rúmar 918 milljónir króna til um 17.100 umsækjanda í almennar húsnæðisbætur vegna leigu í janúarmánuði.

HMS greiðir einnig sérstakan húsnæðisstuðning fyrir sveitarfélögin Skagafjörð og Kópavog sem hluti af tilraunaverkefni stjórnvalda. Sérstakur húsnæðisstuðningur er á forræði sveitarfélaganna og felur í sér aukinn stuðning við þá sem sökum fjárhagslegra- eða félagslegra aðstæðna eiga erfitt með að standa straum af húsnæðiskostnaði. Greiddar voru alls um 23 milljónir króna til um 925 umsækjenda í Kópavogi og 80 umsækjenda í Skagafirði.

DEILA