Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) hefur sent frá sé ályktun og lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum á Íslandi.
FÍÆT bendir á að áfengissala á íþróttaviðburðum stuðli að aukinni hættu á óviðeigandi hegðun áhorfenda, neikvæðum áhrifum á fjölskylduvænt umhverfi og grafi undan þeim gildum sem íþróttir standa fyrir, svo sem jákvæðum félagsþroska og heilbrigðum lífsstíl. Fyrirmyndir barna og ungmenna eru bæði innan vallar en líka í stúkunni og mikilvægt er að fyrirmyndir í stúkunni séu líka til fyrirmyndar.
FÍÆT leggur áherslu á að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir öll sem taka þátt í íþróttastarfi á Íslandi. Að þessu sögðu, skorar FÍÆT á stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasérsambönd, íþróttafélög og skipuleggjendur íþróttaviðburða að standa vörð um gildi íþróttahreyfingarinnar og tryggja að ekki verði selt áfengi á íþróttaviðburðum.
Ályktunin var lögð fram og rædd á fundi skóla-, íþrótta- og tómstundanefnda Ísafjarðarbæjar.
Nefndin bókaði að hún taki undir áhyggjur Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi varðandi áfengisneyslu og sölu á íþróttaviðburðum.