Netmiðillinn tígull.is greinir frá því að fiskeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum og Ístækni á Ísafirði hafa undirritað samning um afhendingu á vinnslubúnaði fyrir sláturhús fyrirtækisins í gæðaframleiðslu á landeldislaxi.
Lausnin tryggir fyrsta flokks meðhöndlun hráefnis frá upphafi til enda ferilsins og stuðlar að hámarksgæðum lokaafurðar. Samningurinn nær yfir afhendingu og uppsetningu alls vinnslubúnaðar, allt frá slátrun að flokkunarlínu. Tækin samanstanda af blæði-/kælitanki, handslæingarlínu, auk þvottakerfis fyrir sjálfvirk þrif búnaðarins.
Kristmann Kristmannsson, sviðsstjóri vinnslu og innkaupa hjá Laxey, segir:
“Við hjá Laxey teljum mikilvægt að efla og styðja við bakið á íslenskum tæknifyrirtækjum í fiskvinnslulausnum og vissum að Ístækni býr yfir mikilli reynslu og sérþekkingu á þessu sviði. Ístækni hefur unnið að lausnum sem við vildum hafa í okkar framleiðslu til að tryggja bestu meðhöndlun og mestu kælingu hráefnis til að hámarka gæði vörunnar.“
Samstarf styrkir íslenskan laxaiðnað og undirstrikar mikilvægi þess að fyrirtæki í greininni styðji hvert annað og efli innlenda framleiðslu. Verkefnið er einnig skýrt dæmi um öfluga atvinnusköpun á landsbyggðinni – Ístækni er með starfsemi á Ísafirði, en Laxey rekur landeldi í Vestmannaeyjum, þar sem sláturhús er í undirbúningi.”