Landsvirkjun tilkynnti á föstudaginn var að fyrirtækið hafi tryggt sér lóðir við austurenda Bústaðavegar í Reykjavík , með það í huga að þar rísi næstu höfuðstöðvar orkufyrirtækis þjóðarinnar.
Þó var tekið fram að það kæmi þó í hlut næstu stjórnar fyrirtækisins, sem skipuð verður í apríl, að taka frekari ákvarðanir um hvort eða hvenær af þeim framkvæmdum verður.
Lóðirnar eru þrjár og eru við Bústaðaveg 143, 145 og 147 og liggja að Reykjanesbraut, norður af veitingastaðnum Sprengisandi og gömlu hesthúsum Fáks. Þær voru seldar í einu lagi á um 1,3 milljarða króna með áföllnum gjöldum en fyrstu áform Landsvirkjunar gera ráð fyrir að syðri lóðirnar tvær, 145 og 147, verði sameinaðar undir nýjar höfuðstöðvar.
Í svari upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að lóðirnar hafi ekki verið keyptar af Reykjavíkurborg heldur af tveimur félögum sem höfðu átt þær einhvern tíma.
Þau félög voru búin að greiða öll gjöld vegna lóðarinnar í samræmi við byggingarheimild, þar á meðal gatnagerðargjöld. Kaupverðið skiptist þannig að rúmur milljarður var eiginlegt kaupverð og þessi gjöld voru rúmar 250 milljónir, samtals um 1,3 milljarðar.
Af þessu er ljóst að kostar fyrirtækið 1 milljarð króna að hafa höfuðstöðvarnar í Reykjavík.
Það væri t.d. ekki úr vegi að byggja nýjar höfuðstöðvar á Selfossi, í því héraði þar sem stór hluti orkuöflunar fyrirtækisins er. Við það myndi þessi lóðakostnaður sparast og ef til vill væru byggingarleyfisgjöldin lægri en þær rúmar 250 m.kr. sem innheimtar eru í Reykjavík. Ef svo er væri sparnaðurinn enn meiri en milljarður króna.
-k