Júlíus Geirmundsson ÍS: Landsréttur sýknaði skipstjórann og útgerðina

Júlíus Geirmundsson ÍS í Ísafjarðarhöfn í janúar 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær féll dómur Landsréttar í máli sem skipverji á Júlíusi Geirmundssyni ÍS höfðaði á hendur skipstjóranum og framkvæmdastjóra og útgerðastjóra Hraðfrystihússins Gunnvör hf. Krafist var þess að skipstjórinn greiddi 2 m.kr. í miskabætur og hinir 1,5 m.kr. hvor.

Málshöfðandinn eða stefnandi var háseti um borð í veiðiferð sem hófst aðfaranótt 27. september 2020. Upp komu veikindi meðal skipverja og reyndist um að ræða covid19. Stefndu vou sakaðir um að sýna af sér stórfellt gáleysi með þeirri háttsemi sem þeir viðhöfðu meðan á umræddri veiðiferð stóð og með því valdið stefnanda bæði líkamlegu og andlegu heilsutjóni.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði 9. október 2023 framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en dæmdi skipstjórann til að greiða 400 þús. kr. í miskabætur og 1,8 m.kr. í málskostnað.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms varðandi framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en sneri við dómi skipstjórans og sýknaði hann. Málskostnaður milli aðila var felldur niður á báðum dómsstigum.

Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki liggur ekki fyrir að skipstjórinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með viðbrögðum sínum við veikindum skipverja, sem sé forsenda þess að um sekt gæti verið að ræða.

Skipverjinn hafi í upphafi sagt að hann væri með flensu og leið nokkur tími áður en grunur um covid19 vaknaði. Þá geti sú töf ekki valdið smiti skipverja, sem kom smitaður af kórónuveirunni um borð í togarann, sem og smiti þeirra sem smituðust þar áður en ástæða var til að gruna að skipverjar væru smitaðir af veirunni.

Þá skiptir það máli í rökstuðningi Landsréttar að ekki kom fram sönnun um að skipstjórinn hafi virt að vettugi tilmæli umdæmislæknis sóttvarna um að sigla til Ísafjarðar og koma með skipverjann í sýnatöku, og að ekki liggi ekki fyrir að skipstjórinn hafi fengið slík tilmæli.

Þá liggur fyrir að skipstjórinn „hringdi í heilsugæsluna á Ísafirði 14. október vegna veikindanna og athugaði í framhaldinu hversu margir skipverjar hefðu fundið fyrir einkennum og skráði þær upplýsingar. Kom þá í ljós að mun fleiri skipverjar höfðu fundið til einkenna en tilkynnt höfðu aðaláfrýjanda um veikindi. Af framlögðum gögnum verður ráðið að þá hafi verið búið að ákveða, í samráði við umdæmislækni sóttvarna, að skipið kæmi til hafnar 18. október og að skipverjar færu í sýnatöku.“

DEILA