Alls voru 50.923 íslenskir ríkisborgarar með skráð lögheimili erlendis þann 1. desember sl. samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár.
Flestir voru skráðir í Danmörku eða alls 12.449 einstaklingar. Næst flestir eða 9.357 einstaklingar voru skráðir í Noregi og í þriðja sæti var Svíþjóð þar sem 9.111 íslenskir ríkisborgarar voru skráðir með lögheimili. Í Bandaríkjunum voru 6.640 íslenskir ríkisborgarar og þeir voru 2.526 á Bretlandi.
Íslenskir ríkisborgarar voru með skráð lögheimili í alls 110 löndum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu Þjóðanna þann 1. desember 2024.
Til gamans má geta að í 13 löndum er aðeins einn íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili samkvæmt gögnum Þjóðskrár. Þetta eru löndin Angóla, Belarús, Belís, Gana, Georgía, Gínea, Indland, Makedónía, Máritíus, Pakistan, Panama, Púertó Ríkó og Sómalía.