Ísafjarðarbær: opinn fundur um byggðakvótann

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjastjóri.

Föstudaginn 14. febrúar boðar Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri til opins fundar og umræðu um væntanlega afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á tillögum vegna sérstakra skilyrða (sérreglna) um byggðarkvóta á fiskveiðiárinu 2024/2025. Fundurinn fer fram í fundarsal bæjarstjórnar, 2. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, og hefst klukkan 12. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og ræða sjónarmið sín.

Bæjarstjórn Ísafjarðabæjar frestaði því í síðustu viku að afgreiða sérreglurnar um úthlutun byggðakvóta. Fyrir fundinum lá tillaga um að hafa reglurnar óbreytta fá síðasta ári sem skv. þeim er nóg að landa byggðakvótanum einhvers staðar innan sveitarfélagsins en hann þarf að fara til vinnslu í sveitarfélaginu. En fram kom breytingartillaga frá Kristjáni Þór Kristjánssyni sem vildi að veiddum byggðakvóta sem merktur væri tilteknu byggðarlagi innan Ísafjarðarbæjar yrði landað til vinnslu í því sama byggðarlagi.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri segir að ástæða þess að hún boði þennan fund sé t.a.m. sú „að eftir bæjarráðsfundinn í síðustu viku sem og bæjarstjórnarfundinn þar sem afgreiðslu á sérreglum var frestað hef ég orðið þess áskynja að sjónarmið hagsmunaaðila eru misjöfn. Það er nauðsynlegt fyrir mig og kjörna fulltrúa að heyra þau sjónarmið.“

löndunarskylda í byggðarlagi en ekki vinnsluskylda

Hún segir að þetta snúi einkum að því hvort sett verði inní sérreglurnar að það sé löndunarskylda þess afla sem telst til byggðakvóta innan byggðarlags eða innan sveitarfélags. Sigríður Júlía nefni ekki að sett verði vinnsluskylda á aflanum eins og Kristján Þór lagði til.

Í næstu viku  verða þessar reglur teknar til afgreiðslu í bæjarstjórn og í framhaldi verða þær sendar til ráðuneytisins en frestur til þess er 21.febrúar n.k.

Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður hefur beitt sér fyrir því að byggðakvótinn á Flateyri verði bundinn löndunarskyldu en sagði í samtali við Bæjarins besta að hann gerði ekki kröfu um vinnsluskyldu. Það væri ekki raunhæft. Hins vegar myndi muna um það fyrir höfnina og löndunarþjónustu ef löndunarskyldan væri sett.

DEILA