Malbik er blanda af steinefni, biki og stundum öðrum efnum. Þyngdarhlutföllin er 94-95 % steinefni og um 5-6 % bik.
Malbik er blandað á blöndunarstöðum. Steinefnið er þurrkað við um 150-160°C hita og heitu og þunnfljótandi bikinu hrært saman við ásamt aukaefnum. Blandan er flutt heit og lögð í um 35-55 mm þykku lagi með sérstakri útlagningarvél. Síðan er valtað yfir þar til tilskilinni þjöppun er náð. Vegir með malbiki þola mun meiri og þyngri umferð en vegir með klæðingu en hins vegar er malbik fimm sinnum dýrara en klæðing eins og kemur fram hér að framan.
Klæðing er bundið slitlag sem er mun ódýrara en malbik. Það er fljótlegt í útlögn og ekki þarf blöndunarstöð. Við útlögn er steinefni dreift ofan á bindiefnið, sem er þynnt bik með leysiefni, vatni og lífolíu.
Eftir að klæðing er lögð á veg er sópað yfir eftir ákveðinn tíma. Klæðing þolir allt að 2-3 þúsund bíla ÁDU (umferð á sólarhring) og er hagkvæmt þegar vel tekst til. Klæðing er síður hentug við þegar umferðarþungi er meiri, sér í lagi ef þungaumferð er mikil.