HHF: mikil gróska í íþróttastarfinu

Bogfimi er ný íþrótt innan Harðar á Patreksfiði.

Mikil gróska er á sunnanverðum Vestfjörðum í íþróttastarfinu en í lok ársins 2024 voru stofnaðar tvær nýjar deildir innan aðildarfélaga HHF. Mikil ánægja er með aukið framboð í íþróttastarfi á svæðinu og eykur það líkur á að börn og unglingar finni sér íþrótt við hæfi.

Íþróttafélag Bílddælinga stofnaði Rafíþróttadeild ÍFB og í desember var haldið kynningarnámskeið en æfingar byrjuðu svo af fullum krafti í janúarmánuði. Mikil ánægja er með aukna starfsemi og framboð fyrir börn á Bíldudal. Samtals hefur verið safnað fyrir 6 stöðvum og mikill áhugi er fyrir starfseminni, það verður gaman að fylgjast með deildinni í framtíðinni vaxa og dafna.

Einnig var stofnuð Bogfimideild ÍH hjá Íþróttafélaginu Herði á Patreksfirði í samstarfi við Bogfimisamband Íslands. Boðið var upp á kynningarnámskeið í desember þar sem tveir aðilar frá Bogfimisambandinu komu og kynntu íþróttina fyrir íbúum bæjarins. Námskeiðið var virkilega vel sótt og mikill áhugi hefur skapast á svæðinu. Æfingar hófust í janúarbyrjun og er aðsóknin framar vonum, en alls hafa 38 einstaklingar, bæði börn og fullorðnir, skráð sig á æfingar. Svo mikil er aðsóknin að allir tímar eru fullir og lokað hefur verið fyrir skráningu og byrjað að skrá á biðlista.

Í báðum tilvikum fengu íþróttafélögin góða styrki til þess að koma nýjum deildum á laggirnar, og vilja íþróttafélögin þakka kærlega fyrir veittan styrk til uppbyggingar íþróttastarfs á sunnanverðum Vestfjörðum.

Bina Hannesdóttir, formaður HHF

Rafíþróttadeild innan HHF var stofnuð í fyrra.

DEILA