Í síðustu viku bárust Matvælastofnun niðurstöður rannsókna Tilraunastöðvar HÍ að Keldum á sýnum sem tekin voru úr ref sem aflífaður var í Skagafirði fyrr í vikunni.
Íbúi sá refinn og tók eftir að hann var augljóslega veikur; mjög slappur, hreyfði sig lítið og var valtur á fótunum.
Tilkynnt var um refinn til Matvælastofnunar, reyndar refaskyttur voru fengnar til að aflífa hann, hræið sent til rannsókna á Keldum og greindist hann með fuglainflúensu af gerðinni H5N5. Í ljósi þessa vill Matvælastofnun biðja fólk að vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum eða óeðlilegri hegðun í refum og láta stofnunina vita ef það verður vart við veika eða dauða refi.
Rétt er að benda á að fleiri spendýr, svo sem rottur og mýs, geta líka smitast af fuglainflúensu, þótt veiran hafi ekki greinst hingað til í þessum dýrategundum hér á landi.