Framsókn: vorum óundirbúin fyrir stjórnarslitin

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Þórarinn Pétursson, alþm.

Þessa vikuna er kjördæmavika á Alþingi og þingflokkarnir nota hana til þess að halda fundi út í kjördæmunum og fara í fyrirtæki og á vinnustaði. Þingflokkur Framsóknarflokksins hélt fundi á Vestfjörðum á sunnudag og í gær. Byrjað var á Patreksfirði og í gær voru fundir á Ísafirði og á Hólmavík.

Flokkur fólksins verður á Ísafirði í kvöld á Dokkunni kl 20 með almennan fund, en varð að fella niður fund á Þingeyri sem fyrirhugaður var í gær, þar sem ekki var flogið vestur. Þar mæta þingmenn kjördæmisins Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Fundur Framsóknarmanna á Ísafirði var á óhefðbundnum tíma, fyrir hádegi á mánudegi. Formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í framsöguræðu sinni að úrslit kosninganna hefðu verið mikil vonbrigði en því væri ekki að neita að flokkurinn hefði síðastliðið haust verið óundirbúin því að boðað var til alþingiskosninga. Þá hefði það komið fljótt í ljós að fólk var orðið leitt á fráfarandi ríkisstjórn og vildi breyta til.

Það þýddi hins vegar lítið að dvelja við það sem orðið er heldur þyrfti flokkurinn að huga að málflutningi og afla honum fylgis. Nú væri flokkurinn í stjórnarandstöðu og það gæfi honum færi á að leggja fram sín helstu mál og nefndi hann sem dæmi tillögu um nýja skipan íbúðalána með föstum vöxtum , tryggja heimilum og litlum fyrirtækjum forgangsraforku og að verjast ásælni erlendra aðila í jarðir. Framsóknarflokkurinn væri sterkur á sveitarstjórnarstiginu og næsta verkefni væri að undirbúa næstu sveitarstjórnarkosninga sem verða eftir liðlega eitt ár.

Sigurður Ingi var spurður að því hvers vegna hefði dregist að bjóða út lokaáfanga í stórum verkum á Vestfjörðum, Dynjandisheiði og í Gufudalssveit með þeim afleiðingum að verklokum seinkar um tvö ár.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sem var innviðaráðherra stóran hluta síðasta kjörtímabils, sagði að framaf , á árunum 2021 og 2022 hefði fjárveitingar verið hærri en því sem var ráðstafað með útboðum. Þá hefði verið innistæða og hægt að bjóða meira út, en fjármálaráðuneytið hafi þá lagt áherslu á aðhald. Þetta hafi snúist við á árunum 2023 og 2024 þegar verðbólga jókst. Við það hækkaði verulega kostnaður við útboðsverkin og Vegagerðin hafi fengið fyrirmæli um að vera innan fjárheimilda. Þá hafi ekki náðst samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um PPP verkefnin sem gera ráð fyrir utanaðkomandi fjármögnun og ekki hafi heldur verið samstaða í ríkisstjórninni um að auka við fjárveitingar til vegamála.

Frá fundi Framsóknarflokksins í Edinborgarhúsinu.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA