Fiskeldisgjald: ríflega tvöfaldaðist milli ára

Frá laxeldi í Patreksfirði. Sjókvíaeldið greiðir hæsta fiskeldisgjaldið.

Fiskeldisgjald, sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða í ríkissjóð, varð 1.471 m.kr. á síðasta ári. Það hækkaði um 129% frá árinu 2023, þegar það var 643 m.kr. Hækkunin milli ára er 828 m.kr.

Þetta kemur fram í yfirliti sem Fiskistofa hefur birt.

Fjögur eldisfyrirtæki á Vestfjörðum greiddu samtals 893 m.kr. eða nærri 61% alls gjaldsins. Það eru Arnarlax sem greiddi 442 m.kr., Arctic Fish með 197 m.kr., Háafell greiddi 251 m.kr. og Hábrún 3 m.kr.

Eitt fyrirtæki á Austfjörðum, Kaldvík, greiddi 578 m.kr.

2.760 m.kr. frá 2020

Fiskeldisgjaldið var fyrst innheimt fyrir framleiðslu ársins 2020 og greiddu fyrirtækin þá samtals 54 m.kr. Næsta ár þrefaldaðist innheimtan og varð 151 m.kr. Árið 2022 var greitt 441 m.kr. og 643 m.kr. árið 2023 og svo 1.471 m.kr. í fyrra eins og fyrr segir. Samtals hafa eldisfyrirtækin greitt 2.760 m.kr. á þessum fjórum árum.

Síðastliðin ára­mót hækkaði gjald á sjókvía­eldi um 19%. Fór gjald á lax úr 37,8 krón­um á kíló í 45,03 krón­ur og úr 18,9 krón­um á kíló fyr­ir regn­bogasil­ung og landeldislax í 22,52 krón­ur, en greitt er hálft gjald miðað við eldislax í sjókvíum.

DEILA