Finnbogi: hækkanir í hrópandi ósamræmi við samninga verkalýðshreyfingarinnar

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkvest. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segist vilja byrja á því að óska kennurum til hamingju með nýjan kjarasamning. En hvort hann kalli á viðbrögð innan ASÍ á eftir að koma í ljós eftir að innihald samninganna hafa verið rýnd ofan í kjölinn.

„Við erum að tala um að mig minnir 7 mismunandi kjarasamninga við kennara og eina sem hefur verið sagt er að hækkunin nemi 24%, ekki hefur komið fram hvort það er flöt hækkun eða ekki. Okkar fólk sem er með lökustu kjörin fengu ca. 15 – 17% hækkun í 4 ára samningi og ef við berum þá tölu flata við hækkun kennara þá er munurinn í hrópandi ósamræmi við þá línu sem verkalýðshreifingin í samráði við stjórnvöld og sveitarfélög sömdu um árið 2024.“

gæti kallað á endurskoðun okkar kjarasamninga

Finnbogi bætir því við að „Ég hef í raun meiri áhyggjur af því hvernig ríki og sveitarfélög ætla að fjármagna þessar hækkanir og hvort þessar umframhækkanir muni hafa áhrif á þá kjarasamninga meðal félaga innan ASÍ sem enn hafa ekki verið kláraðir. Slíkt gæti kallað á endurskoðun forsenduákvæða kjarasamninga okkar.“

DEILA