Í svörum frá Vegagerðinni við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að ekki er búið að velja endanlega veglínu í Vatnsfirði við Breiðafjörð. Fyrir liggja valkostirnir sem voru kynntir í umhverfismati en ekki er búið að taka endanlega afstöðu til veglínu og var því frestað svo það myndi ekki tefja framkvæmdir yfir Dynjandisheiði. Vegagerðin reiknar með að skoða þetta mál á árinu.
Vegagerðin lagði til að þverað yrði yfir Vatnsfjörðinn í stað þess að fara fyrir fjörðinn eins og núverandi vegur liggur.
Við það myndi Vestfjarðavegur styttast um 3,7 km. Það er mat Vegagerðarinnar að þverunin myndi auka öryggi vegfarenda en vera kostnaðarsamari en endurbygging vegarins fyrir Vatnsfjörð. Þá segir Vegagerðin að ekki sé mögulegt „að nota núverandi veg óbreyttan nema tímabundið, því fyrr eða síðar kemur að því að breikka þurfi veginn og byggja nýjar brýr á Þingmannaá, Vatnsdalsá og Pennu. Einnig þarf að ráðast í öryggisaðgerðir við Hótel Flókalund.“
Sveitarfélagið Vesturbyggð lagðist gegn þverun Vatnsfjarðar og taldi hana myndi rýra gildi friðlýsingar Vatnsfjarðar og skerða ásýnd svæðisins. Núverandi veglína ásamt úrbótum við Flókalund væri hagkvæmari og skynsamari kostur. Ávinningur af þverun væri lítill.
Samgöngufélagið gekkst á árinu 2021 fyrir könnun um þverun Vatnsfjarðar. Tæplega 400 manns tóku þátt í könnuninni og reyndist þátttakendur fremur hlynntir þverun Vatnsfjarðar.
Vegagerðin leggur fram tillögu til sveitarfélaganna um veglínuna en sveitarfélögin hafa skipulagsvaldið.