Ný vatnsveita verður tekin í notkun í vikunni í Bolungavík. Byggður hefur verið ný vatnstankur í Hlíðardal sem er í tveimur hólfum og tekur hann 2,6 milljónir lítra af vatni. Vatnsþörfin er um 100 rúmmetrar á klst og dugar því fullur tankur í rúmlega sólarhring.
Bygging hófst á árinu 2022 og aðalverktaki eftir útboð var Þotan ehf og undirvektaki Vestfirskir verktakar ehf. Efla verkfræðistofa annaðist hönnun.
Vatnið er síað í gegnum diska og sandsíur og síðan geislað inn á tankinn og þaðan út á veitukerfi. Í gegnum nýju vatnsveituna er hægt að sía 240 m³ á klst.
Vatnið er að mestu borholuvatn. Síðar á árinu verða boraðar fleiri borholur og er vonast til að nægilegt vatn komi úr þeim svo allt vatn verði borholuvatn. Borað er í nágrenni við vatnsveituna í Hliðardal.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að um sé að ræða eina stærstu innviðaframkvæmd í bæjarfélaginu síðustu áratugina og að kostnaður sé kominn í um 400 m.kr. Þörfin fyrir hreint og gott vatn fyrir íbúana sé augljós en ekki síður megi benda á að stærstu fyrirtæki bæjarins séu öll í matvælaframleiðslu, Jako Valgeir ehf, Arctic Fish og Arna, og það sé algert úrslitaatriði fyrir þau að geta fullvissað viðskiptavini sína um að þau notist við heilnæmt og gott vatn í vinnslunni.
Opið hús var á laugardaginn og var stöðugur straumur af fólki, bæði heimamenn og frá nágrannabæjunum, að skoða hin glæsilegu mannvirki.

Vatnsveituhúsið nýja.

Hreinsitankar vatnsveitunnar.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.