Áhöfn Húnabjargar, björgunarskips Slysavarnarfélags Landsbjargar á Skagaströnd, var kölluð út í gær vegna fiskibáts sem var á veiðum utarlega í Húnaflóa.
Skipstjóri bátsins óskaði eftir aðstoð eftir að net höfðu farið í aðal- og hliðarskrúfur bátsins, sem olli því að ekki var hægt að sigla honum fyrir eigin vélarafli. Húnabjörgin fór frá Skagaströnd skömmu fyrir klukkan tíu í ágætu veðri og segir í tilkynningu Landsbjargar að lítil hætta hafi verið á ferðum.
Siglingin tók tæpa tvo tíma og um hádegisbil var búið að koma taug á milli og svo var haldið til Skagastrandar með bátinn en þangað komu bátarnir um klukkan fimm í gær.