Nýliðun karfastofna í heimshöfunum er mjög sveiflugjörn og gjarnan langt milli þess sem sterkir árgangar sjást. Jafnframt eru karfategundir hægvaxta og seinkynþroska. Því er mikilvægt að veiðihlutfall sé lágt því þannig má draga úr sveiflum í veiðum og halda hrygningarstofni yfir varúðarmörkum.
Djúpkarfastofninn við Ísland er metinn undir varúðarmörkum og að það eru orðin meira en 15 ár síðan vart var við þokkalega nýliðun í djúpkarfastofninum. Mælingar Hafrannsóknastofnunar sýna því langvarandi brest í nýliðun sem á komandi árum mun leiða til enn frekari minnkunar hrygningarstofns djúpkarfa. Mun það ástand vara þar til nýliðun batnar. Allar veiðar munu því hafa neikvæð áhrif á stofninn.
Þann 21. nóvember 2024 gaf þáverandi matvælaráðherra út 3.800 tonna aflamark fyrir djúpkarfa fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 en í júlí 2024 hafði þáverandi matvælaráðherra farið að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ekki úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2024/2025.
Ástæða fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ekkert aflamark (0 tonna ráðgjöf) fiskveiðiárin 2023/2024 og 2024/2025 er slæmt ástand stofnsins sem er metinn undir varúðarmörkum og nýliðun síðustu 15 ár eða svo hefur verið lítil sem engin.
Þetta er staðfest bæði með gögnum úr stofnmælingum og úr afla fiskiskipa.