Alþingi: þjóðaratkvæðagreiðsla um Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd: guide.Is

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fam á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Er þetta í áttunda sinn sem tillagan er flutt.

Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson. Aðrir flutningsmenn eru Guðrún Hafsteinsdóttir, Ólafur Adolfsson og Vilhjálmur Árnason.

Í tillögunni segir að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?
    ❏ Já.
    ❏ Nei.“

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir: „Með því fær þjóðin tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna og þjóðaröryggis. Ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. „

Á fyrri stigum málsins hafa borist umsagnir frá ýmsum aðilum. Tuttugu og ein umsögn barst um málið og var yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sveitarfélaga og samtaka sveitarfélaga sem sendu umsögn um málið fylgjandi því að landsmenn fengju að hafa skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Aðeins Reykjavíkurborg var því mótfallin. 

DEILA