“Þegar ég var lögfræðingur Skipulagsstofnunar árin 2000–2006 var Teigsskógur á mínu borði og það er alveg klárt mál að það er gríðarlega mikilvægt að framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit tefjist ekki frekar. Það er þegar búið að bíða í rúm 20 ár eftir þessi vegur klárist.”
Þessi frómu orð lét núverandi Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Eyjólfur Ármannsson, 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis, falla þann 10. október 2023 í umræðum á Alþingi um tillögu að Samgönguáætlun. Segja má að þessi ummæli hafi orðið að áhrínisorðum og meirihluti fjárlaganefndar rammaði þessa hugsun inn í nefndarálit sitt með þessum hætti:
“Fyrir liggur forgangsröðun í gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 sem dregist hefur að ljúka. Þar liggja fyrir tillögur um framkvæmdir varðandi vegi, flugvelli og hafnir. Þar að auki liggur fyrir langtímasamgönguáætlun til ársins 2034. Ekkert er því til fyrirstöðu að Vegagerðin, í samráði við innviðaráðuneyti, geti gert samninga við verktaka eins og í hefðbundnu árferði. Heildarframlög til nýframkvæmda á vegakerfinu hækka milli ára og nema 27,4 ma.kr. á næsta ári. Veigamestu framkvæmdir verða á Vestfjörðum, m.a. á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit, á Reykjanesbraut og á hringvegi um Hornafjarðarfljót. Í áætlunum er gert ráð fyrir því að þeim framkvæmdum ljúki að mestu árið 2025 og því verði aukið svigrúm til nýrra verkefna árið 2026. Nefndin gerir ráð fyrir því að þá liggi fyrir samþykkt samgönguáætlun til fimm ára.”
“Meira að segja í myrkri”
Þetta var býsna skýrt og í samræmi við málflutning núverandi samgönguráðherra. Það eru út af fyrir sig ekki sérstök tíðindi. Ég leyfi mér amk að fullyrða að mikill stuðningur er við að lúka framkvæmdum í Gufudalssveitinni, svo fljótt sem tæknilega megi. Segja má að okkar nýi samgönguráðherra hafi undirstrikað þetta þann 30. janúar sl. í viðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2, þegar hann sagði:
„Aðalatriðið er að klára Dynjandisheiði, klára Gufudalssveitina. Þetta eru stórhættulegir vegir og ég hef keyrt þetta margoft sjálfur, meira að segja í myrkri.” – Þessum orðum ber sannarlega að fagna og eru þau algjörlega í samræmi við við framangreindar yfirlýsingar við afgreiðslu fjárlaga.
En hvenær lýkur framkvæmdunum?
Það jók bjartsýni okkar margra að fregna þau tíðindi af Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins að í næsta mánuði, verði boðnar út framkvæmdir við tvær brýr í Gufudalssveitinni; annars vegar 130 metra brú í Gufufirði og 58 metra brú í Djúpafirði. Ennfremur að ætlunin sé að fara í útboð á 230 til 260 metra brú í Djúpafirði, auk fleiri verkefna eins og þar sagði. Það skyggir hins vegar talsvert á gleðina, að þetta útboð er ekki fyrirhugað fyrr en á haustdögum, sem veldur áhyggjum um að verklok verði seint og um síðir. – Enda er það svo að margföld reynsla er af því að hugtakið “haust” getur verið ansi loðið og teygjanlegt þegar svo ber undir !!
Þess vegna er mikilvægt að upplýst sé hið fyrsta um hvenær ætla megi að þessum ofangreindu framkvæmdum ljúki. Í ljósi sögunnar og þeirra dæmalausu tafa sem hafa orðið á framkvæmdum á þessari leið, er bæði sjálfsagt og eðlilegt að framkvæmdahraðinn sé eins mikill og frekast er tæknilega unnt.
Með skírskotun til þeirra ummæli sem samgönguráðherra lét falla í ræðu sinni um Samgönguáætlun og fyrr er til vitnað langar mig að beina spurningum til hans í mikilli vinsemd. Enda treysti ég því, með skírskotun til fyrri orða hans, sbr hér að ofan, að hann muni einskis láta ófreistað svo að lokið verði við þessar framkvæmdir svo fljótt sem verða má af tæknilegum ástæðum.
Þrjár einfaldar spurningar
Því leyfi ég mér ágæti Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra að spyrja þig einfaldra spurninga og veit að þú munt svara þeim af einurð og hreinskilni:
- Er lagt upp með við útboð framkvæmdanna í Gufudalssveitinni að þeim verði lokið jafn skjótt og tæknilega telst unnt ?
- Hvenær má þess vænta að unnt verði að aka ofangreinda leið yfir Gufufjörð og Djúpafjörð?
- Sum sé, kæri samgönguráðherra: Hvenær kemur þú vestur, mundar skærin, klippir á borðann og lýsir því yfir að langþráðum framkvæmdum við þennan umtalaða veg sé lokið?
Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Norðvesturkjördæmis