Þorrablót Flateyringa, Stútungur var haldinn á laugardaginn. Að sögn Fanndísar Fjólar Hávarðar voru um 220 manns á blótinu, sem fram fór í íþróttahúsinu. Undanfarin ár hafa verið 200 – 250 manns á Stútung, sem verður að teljast nokkuð gott í byggðarlagi þar sem ibúafjöldinn 1.1. 2024 var 189 manns.
Blótið er vel sótt af heimamönnum og brottfluttum, auk þess sem það er opið fyrir utansveitarfólki.
Skipuð er á hverju blóti sérstök þorrablótsnefnd sem heldur næsta blót og og eru 12 – 13 manns í hverri nefnd. Sé nefndin um allan undirbúning og annast skemmtiatriðin. Stútungsnefndin nýtir sér tæknina og eru skemmtiatriðin að mestu leyti tekin upp fyrirfram og sýnd á stóru tjaldi á blótinu. Mikið var lagt í skemmtunina og gerðu blótsgestir góðan róm að framlagi nefndarinnar.
Í næstu Stútungsnefnd verða á annan tug manns, þar á meðal má nefna Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Dag Sigurðsson, handboltaþjálfara Króata og Brynhildi Einarsdóttur Odds Kristjánssonar frá Sólbakka.

Blótsgestir í biðröð við þorramatinn.

Skemmtuninni lauk með því að sungnar eru nefndarvísur, en þær fjalla um fráfarandi Stútungsnefnd.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.