Nú hafa ef til vill einhverjir tekið eftir því að viðburðum verkefnisins Gefum íslensku séns -íslenskuvænt samfélag hefir fjölgað mikið. Fyrir vikið er einkar góður stígandi í starfinu um þessar mundir og er auk þess komin ágætis mynd á starfið eftir að Fræðslumiðstöð Vestfjarða tók við hýsingu þess síðasta haust og unnt var að skapa þar 50% stöðugildi verkefnastjóra. Fram að þeim tíma var starfið unnið í sjálfboðavinnu. Stöðugildið var skapað fyrir tilstuðlan fjármagns sem verkefnastjóri sótti suður til tveggja ráðuneyta áður en til kosninga kom. Var þar Lilja Dögg Alfreðsdóttir haukur í horni.
Fjölgun viðburðanna er jákvæð eykur sannlega tölu tækifæra fólks til að nota málið. Saman. Þar geta innflytjendur og móðurmálshafar komið saman, innflytjendur til að æfa og læra, móðurmálshafar (líka þeir sem hafa málið vel á valdi sínu) til að hjálpa til við máltileinkun innflytjenda. Þar er einnig tækifæri til að læra af hver af öðrum. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við hjá Gefum íslensku séns trúum enda því að máltileinkun sé samfélagslegt verkefni og á ábyrgð þess, í víðum skilningi, að stuðla að hvata og ýta undir almenna notkun málsins svo sem flestir geti verið hluti af (mál)samfélaginu. Fjölgun viðburða hefir þar að auki skilað sér í betri mætingu í það heila. Er það vel.
Ég væri nefnilega að ljúga ef ég segði að alltaf hefði verið metmæting í gegnum tíðina. Oft og tíðum var nefnilega ansi einmanalegt um að líta á viðburðum verkefnisins þótt aldrei hafi ég verið aleinn. Bara einu sinni hefir orðið messufall á þessum 3-4 árum sem ég hefi staðið í brúnni fyrir Gefum íslensku séns (2023) og Íslenskuvænt samfélag – við erum öll almannakennarar (2022) eins og það hét áður. Frumútgáfan var svo Íslenskuvænn staður (2021). Viðburðirnir eru örugglega komnir vel á annað hundruð með kynningum út um allar koppagrundir (ég er ekki með nákvæma tölu).
Ég er og ekki frá því að þessi viðleitni hafi skilað einhverju smá. Að einhverjir séu meðvitaðri um stöðu íslensku sem annars máls og hvað til þarf til að íslenska verði sjálfgefna málið á Íslandi. Ekki enska.
Það er því full ástæða til að ætla að verkefnið haldi áfram að vaxa og að sýnileiki þess aukist því kristaltært er, augljóst með endemum, að ekkert breytist af sjálfu sér. Svo er deginum ljósara að vilji og áhugi til að hjálpa verður að vera til staðar til að innflytjendur læri íslensku. Þetta ber gera á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Væri auk þess ekki úr vegi að þeir aðilar sem hæst hafa með að innflytjendur séu óalandi og óferjandi og nenni ekki að læra íslensku og íslenska siði láti sjá sig á viðburðum Gefum íslensku séns. Þannig geta þeir sannlega lagt sitt lóð á vogarskálina augliti til auglitis við þá sem læra eða ef til vill það sem þeir óttast og sleppi því að hamra í bræði á lyklaborðið miður sannar fullyrðingar um að innflytjendur hafi almennt ekki áhuga á að læra málið. Nei, það sem skortir er hvati og pressa samfélagsins í bland við betra framboð á námskeiðum og námsefni. Þetta er fyrst og síðast samfélagslegt mál. Og hananú!
Málið er einfalt. Ef þú vilt að áfram verði töluð íslenska hér, ef þú vilt að fólk læri íslensku og noti hana verður þú að gera eitthvað annað í því en að tala ensku öllum stundum við þá sem læra eða ættu að læra málið. Það er ekki náttúrulögmál að við þurfum að tala, oft og tíðum, slælega ensku til að geta tjáð okkur við þá sem ekki hafa málið að móðurmáli. Það er, svo ég vitni í Spaugstofuna, rangur misskilningur.
Og talandi um það. Næsta laugardag á sér einmitt hraðíslenska stað á Dokkunni. Klukkan 16:00. Og innan skamms fer svo vetrardagskrá verkefnisins í loftið og ber að hvetja fólk til að kynna sér hana. Ekki væri og verra láti fólks sjá sig af og til og bjóði þá kannski með sér vin, maka, kunningja, vinnufélaga o.s.frv. sem langar að æfa sig í notkun málsins. Eitt er víst að tækifærin verða mýmörg á árinu sem var að byrja.
Að lokum segi ég bara: Áfram allra handa íslenska anno domini 2025!
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag