Villtur lax losnar við lúsina

Ný skýrsla Náttúrustofu Vestfjarða hefur vakið þá ályktun að lús smitist frá eldiskvíum yfir í villtan lax og geti skaðað hann samanber umfjöllun í Morgunblaðinu í síðustu viku. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en í gær og þar má lesa fleira sem máli skiptir og bendir ekki til þess að svona sé í pottinn búið.

Athyglisvert er að aðeins einn lax var veiddur í rannsóknunum sem fram fóru í fyrra og eru því engar upplýsingar um áhrif eldisins á villtan lax út frá því. Sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar allt frá 2016 um lús á laxfiskum og eiga þær það sammerkt að villtur lax er ekki til rannsóknar.

Rannsóknirnar hafa snúið að bleikju og sjóbirtingi. Það eru vatnafiskar sem ganga í sjó 6 – 8 vikur á ári og fara yfirleitt ekki langt frá sinni á og eru grunnt. Þeir eru lúsalausir þegar þeir ganga í sjó og fá þar á sig lús. Það er mögulegt að þeir sæki lús í eldiskvíar og segir í skýrslunni :

„Gögnin sýndu enn fremur sterka fylgni á milli lúsamagns á villtum fiski og magns fullorðinna kvenkyns laxalúsa í nærliggjandi fiskeldisstöðvum. Marktækt fleiri smittilvik fundust í villtum fiski frá svæðum þar sem hátt magn fiskilúsa fannst í fiskeldisstöðvum, sérstaklega þegar heimkynni þeirra voru nálægt netakvíum.“

En þessar tegundir, bleikja og sjóbirtingu, ganga aftur upp í ferskt vatn yfir vetrartímann og „losna þeir þá við sjávarlúsina á náttúrulegan hátt.“ segir í skýrslunni. En lúsin drepst í fersku vatni. Tíminn sem lús er á fiskunum er svo stuttur að varla verður skaði af enda er það ekki fullyrt í skýrslunni. Það hefði mátt segja frá því í skýrslunni með skýrum hætti að silungurinn losnar við alla lús innan fárra vikna.

Varðandi villta laxinn þá gefa skýrslurnar ekki neinar upplýsingar um lúsasmit frá eldiskvíum. Athuga ber þó að eldisfiskur er lúsalaus þegar hann er settur út og lús berst í kvíarnar utan frá , frá villtum lax og silungi.

Það er þó vitað að laxaseiði ganga í sjó á vorin og halda til hafs. Þau geta synt framhjá kvíum en á þeim tíma er lúsin ekki áberandi. Seiðin koma svo til baka eftir 1-3 ár sem fullvaxinn fiskur og væntanlega með lús á sér. Mögulegt er að laxinn bæti á sig lús á leiðinni upp í sína á en það er skammur tími og þegar í ána er komið drepst lúsin.

Þetta bendir ekki til þess að villtir laxafiskar séu í teljandi hættu af lús frá eldiskvíum.

Helsti skaðinn af lús er á eldisfiskinn og verkefnið er að halda lúsasmiti í kvíunum í lágmarki.

-k

DEILA