Ég heiti Elías Jónatansson og starfa sem Orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða. Jafnframt sit ég í stjórn Bláma, sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu. Þá sit ég einnig í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins og í stjórn Háskólaseturs Vestfjarða. Ég er fæddur 1959, sonur Jónatans Einarssonar og Höllu P. Kristjánsdóttur. Pabbi var innfæddur Bolvíkingur en mamma var fædd og uppalin á Ísafirði. Ég er kvæntur Kristínu G. Gunnarsdóttur, aðalbókara hjá Bolungarvíkurkaupstað, en saman eigum við þrjú börn og þrjú barnabörn.
Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1979 og prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 1983. Ég fór síðan til náms í Oregon State University í Bandaríkjunum og lauk þaðan MSc gráðu í iðnaðarverkfræði. Ég kom heim úr námi 1985 og starfaði ég þá fyrst á verkfræðistofu í Reykjavík en flutti vestur árið 1988 og starfaði þá lengst af hjá fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi og fiskvinnslu þar til ég tók við starfi bæjarstjóra í Bolungarvík árið 2008. Því starfi gegndi ég í átta ár áður en ég var ráðinn Orkubússtjóri árið 2016. Þá var ég bæjarfulltrúi í Bolungarvík frá árinu 2002 til 2016 og sat m.a. á tímabili í stjórn Fjórðungsambands Vestfirðinga.
Áhugamálin
Það verður að segjast eins og er að virkjanamál og nýting jarðhita eru ofarlega á baugi, ekki aðeins í starfinu heldur sem áhugamál líka. En að þeim slepptum þá hef ég mikinn áhuga á golfi. Ég spilaði dálítið golf fyrir 20 árum eða svo en lagði svo kylfurnar nánast til hliðar í 15 ár. Árangurinn lætur aðeins standa á sér þrátt fyrir að kylfurnar hafi verið endurnýjaðar. Ég er enn ekki búinn að ná þeirri forgjöf sem ég hafði 2005 og var hún þó ekki þannig að hún fari hér á prent. Markmiðið er hins vegar skýrt – að ná forgjöfinni undir 20. Það er óþarfi að setja ártal á það markmið – það endurnýjast bara um hver áramót. Þá hef ég gaman að því að stunda badminton og reyni að mæta tvisvar í viku yfir vetrartímann. Ég reyni svo að hreyfa mig eitthvað alla virka daga á morgnana áður en ég fer til vinnu.
Ég hef alltaf haft gaman af því að horfa á góðar bíómyndir, en það er orðið mjög sjaldgæft að ég mæti í bíó nema um sé að ræða bolvískar eða ísfirskar bíómyndir. Mér finnst líka mjög gaman að hlusta á tónlist og geri talsvert af því bæði heima og í bílnum. Ég fer þó allt of sjaldan á tónleika en nýt þess mjög þegar ég loks fer.
Þessi áhugamál tengjast því að ég geri frekar miklar kröfur um hljómgæði þegar ég er að hlusta og áhuginn snýr því líka að sjálfum græjunum, þótt ég sé ekkert nærri því að vera það sem á ensku er kallað audiophile. Ég velti ósjálfrátt fyrir mér hljómburði og hljóðvist hvar sem ég kem og hef oft orð á því hvort mér finnist hún vera góð eða slæm.
Matargerð hefur verið vaxandi áhugamál hjá mér. Ég hef gaman af því að elda hvort sem er inni eða úti en er ekki tilbúinn í að eyða heilu dögunum í eldamennskuna nema eitthvað mikið standi til. Þessu áhugamáli fylgir það vandamál að ég læt mér ekki nægja matarilminn og þarf þá mikið að smakka til. Það kann að hafa með það að gera að vigtin stendur nokkuð í stað þótt ekki standi á áformum um að léttast. En er ekki einmitt sagt að það sé ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið sem skiptir mestu máli? Kannski jókst áhuginn á eldamennskunni eftir að ég heyrði sögu af Berglindi Höllu dóttur minni úr leikskólanum þar sem hún var spurð hver eldaði matinn heima? ,,Sko, mamma eldar oftast – en pabbi gerir góða matinn” Eftir þetta komst ég ekki upp með að elda bara á helgum.
Starfið
Starf okrubússtjóra er mjög fjölbreytt og nánast alltaf skemmtilegt, enda vinn ég með góðu fólki á öllum aldri, en hjá fyrirtækinu starfa um 60 manns. Orkubúið er með starfsstöðvar á Ísafirði, á Patreksfirði, á Hólmavík og í Mjólká. Ég geri ráð fyrir að flestir viti um hvað starfsemi Orkubúsins snýst, en þar er um að ræða ákveðna grunnþjónustu sem snýr að orkuöflun og dreifingu hennar til almennings og fyrirtækja á Vestfjörðum. Um er að ræða bæði raforku og varmaorku eða heitt vatn, en Orkubúið rekur dreifikerfi raforku um alla Vestfirði auk þess að eiga og reka 7 vatnsaflsvirkjanir, samtals 17 MW að stærð. Þær teljast allar vera litlar, en stærst þeirra er Mjólkárvirkjun 11 MW að stærð.
Orkubúið rekur einnig rafkyntar hitaveitur í Bolungarvík, á Ísafirði, í Súgandafirði, á Flateyri og á Patreksfirði sem eru samtals 21 MW í uppsettu afli.
Afhendingaröryggi raforku hefur verið óþrjótandi verkefni frá stofnun Orkubúsins og hefur mikil áhersla verið lögð á að bæta það með lagningu jarðstrengja í stað loftlína í dreifikerfinu um alla Vestfirði og er einmitt að hefjast stór áfangi sem felst í að jarðstrengur verður lagður til Súðavíkur og verður þá hægt að leggja niður eina erfiðustu línu dreifikerfisins, Súðavíkurlínu. Samtímis hefur verið byggt upp mikið net díselvéla sem tryggja rafmagn t.d. þegar eina flutningslínan til Vestfjarða – Vesturlína verður straumlaus. Stefna Orkubúsins er að gera Vestfirði sjálfbæra í orkuöflun, en í dag kemur helmingur orkunnar inn á Vestfirði um eina flutningslínu – Vesturlínu. Mesta aflþörf raforkukerfisins er á köldum vetrardegi og er þá um 44 MW. Tiltækt afl frá virkjunum á Vestfjörðum er þá oft einungis 11 MW sem er einungis fjórðungur af aflþörfinni. Vestfirðingar verða þá að treysta á að Vesturlína skili þeim þremur fjórðu sem á vantar eða 33 MW.
Á síðustu átta árum hefur Orkubúið því skoðað á annan tug virkjunarmöguleika vítt og breytt um Vestfirði, en nú hefur stefnan verið sett á að afla heimilda til byggingar tveggja vatnsaflsvirkjana sem geta gjörbreytt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Þar er um að ræða 9,9 MW Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði og 20 til 30 MW virkjun í Vatnsdal. Þótt við hefðum grunsemdir um að þessar virkjanir gætu verið mikilvægar höfðum við ekki haldbærar tölulegar upplýsingar fyrr en við fengum í hendur niðurstöður sérfræðinga sem sýna svart á hvítu að með tilkomu þeirra dregur úr líkum á straumleysistilfellum á Vestfjörðum um 90%. Það er ástæða þess að við erum óþreytandi að kynna þær niðurstöður og mikilvægi þeirra fyrir Vestfirðinga og vestfirskt atvinnulíf, enda má ætla að engir virkjanakostir á Íslandi hafi jafn afgerandi jákvæð áhrif á sitt nærumhverfi, hvað orkuöryggi varðar. Þá tel ég að erfitt sé að finna virkjanakosti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfi sitt.
Vegna stöðunnar í raforkuöflun á landsvísu stöndum við frammi fyrir mikilli hækkun á verði raforku til rafkyntu veitnanna, sem hingað til hafa keypt ódýrari, en jafnframt ótrygga orku. Við brugðumst við því vandamáli sem blasti við, með því að hefja leit að heitu vatni í grennd við rafkyntar hitaveitur 2018. Í sumar fannst svo heitt vatn í Tungudal í Skutulsfirði og er nú unnið að afkastamati á nýtanlegri orku úr svæðinu auk þess sem unnið er að forhönnun og vali á varmadælum til að tryggja sem besta nýtingu orkunnar. Jafnframt höfum við samið við Landsvirkjun um forgangsorku á veiturnar næstu fjögur árin.
Ef áætlanir Orkubúsins ganga eftir og heimild fæst til að virkja fallvötn og jarðhita eru mjög stór og spennandi verkefni fram undan hjá Orkubúinu og ég er sannfærður um að þau munu auka hagsæld Vestfirðinga í góðri sátt við náttúruna.