Hver ósköpin ganga á?
Og ekkert er þó að sjá!
Svo mikið var mig um er mér var boðið að vera í vikuviðtali hjá uppáhalds miðli mínum sem er vitanlega Vestfirðingur einsog ég okkar einlæga Bæjarins besta bb.is
Reyndar var mér svo um að mér datt ekki einu sinni í hug eigin orð heldur orðastafi eins míns uppáhaldsskálds Jóhannesar Bjarna Jónassonar, betur þekktur sem Jóhannes úr Kötlum. Kvæðið nefnist Draugangur og er alveg magnað einsog svo mörg ljóða skáldsins. Sama get ég kannski ekki sagt um mig. Ætti mætti ekki bara halda áfram með draugagang Jóhannesar og segja:
Skárri er það helvítis hávaðinn.
En ég er nú bara þannig uppalinn að segja frekar já en nei. Svo vill það nú oft vera höfuðverkurinn að hefjast handa en það hefst víst ekkert öðru vísi en að hefja pár mitt sem við skulum skipta í þrjú ess. Strákurinn – Starfið – Stundin.
Strákurinn
Fæddur sama dag og rokkarinn Alice Cooper þó eigi sama ár þó margir haldi það. Ég lifi bara svo hratt var kominn með grátt í vanga og mottu undir nef við siðfestu og fermingaraldurinn. Alinn upp á Bíldudal í Birkihlíð og því er birki mitt tré en gleym-mér-ei mitt uppáhaldsblóm. Afhverju svo? Jú, vegna þess að það var í uppáhaldi hjá móður minni og ég er sannlega mömmudrengur. Móðir mín hét Þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir frá Patreksfirði. Faðir minn er Bílddælingurinn, stórkaupmaðurinn og stórleikarinn Hannes Stephensen Friðriksson. Þaðan fæ ég margt þá einkum jákvæðan hug og svo leikarann. Það hefur án efa eigi verið auðvelt að ala upp velvirkan pilt einsog mig, fyrir allar þessar greiningar nútímans en einhvernveginn slapp þetta til. En ég held þau hafi nú verið afskaplega fegin þegar Marsibil G. Kristjánsdóttir kom í mína tilveru og varð minn besti vinur og eiginkona. Saman eigum við þrjár dásamlegar dætur Þ. Sunnefu, Heiði Emblu og Öldu Iðunni. Barnabörnin eru einnig þrjú og meira að segja eru þrír kettir í fjölskyldunni svo þetta er bara hattrick, einsog þeir segja í boltanum og það í öllum deildum.
Starfið
Þrátt fyrir að vera alinn upp í sjávarþorpi þá fór ég aldrei á sjóinn heldur fór ég í sjófið, í leikhúsið. Líklega var sú ákvörðun tekin strax um sex ára aldurinn nær ég lék Grýlubarn hvar mín móðir, þ.e. Grýla, var leikin af stórfrænda mínum Erni Gíslasyni. Síðan þá hef ég reynt að toppa sjálfan mig og í raun bara verið að leika mér. Árið 1995 sigldum við svo til Köben hvar ég stundaði leiklistarnám við The Commedia School. Að námi loknu ætlaði maður vitanlega að sigra heiminn og verða stórleikari það var bara spurning hvor yrði á undan að hringja Borgarleikhús- eða Þjóðleikhússtjóri. Hvorugur hefur þó hringt enn. Reykjavík er ágæt en einhvern vegin plummaði ég mig eigi þar svo við fluttum aftur vestur fyrst á Ísafjörð en síðan á Þingeyri hvar við búum enn. Nánar tiltekið í Steininum. Það er Grásteininum. Árið 2001 stofnuðum við Kómedíuleikhúsið atvinnuleikhús Vestfjarða og þremur árum síðar einleikjahátíðina Act alone. Bæði þessi listablóm starfa enn og eru um leið minn megin starfi. Einnig hef ég fengist talsvert við ritstörf og sé alveg fyrir mér að verða enn meiri blekbóndi á komandi árum. Maður er jú komin á b-hliðina en þó er vert að geta þess að ég er tvöfalt albúm.
Stundin
Ég er svo heppinn eða bara svona vitlaus að ég man bara ekki eftir því að mér hafi leiðst tilveran. Allavega ekki af einhverju ráði. Það hjálpar kannski mikið að mér þykir alveg ákaflega gaman í vinnunni enda er ég bara að leika mér. Svo eru það stundirnar, gæðastundirnar til að næra sálina. Þar er einkum þrennt sem ég fíla mest. Ferðalög, lestur og tónlist. Ætli það sé ekki vegna uppáhaldsbókar æsku minnar Palli var einn í heiminum eða þá næst uppáhalds Helgi skoðar heiminn eftir hinn vestfirska Njörð P. Njarðvík sem ferðalög heilla mig svona. Fátt finnst mér betra en skuttla leikmynd í hina kómísku bifreið og skunda í leikferð um landið. Eigi dapurt að geta sameinað starf og áhugamál. Að skoða manns eigið land er nokk sem mig heillar því ávallt sér maður eitthvað nýtt. Í síðustu ferð var kannski rigning á Skagaströnd en í þeirri næstu verður snjór yfir öllu. Svo er það að gjöra einsog Helgi í sögunni kikka á heiminn. Nú síðast fórum við til Baskalands og í sumar förum við til Kosovó. Það verður eitthvað. Lestrastundir eru einnig mínar bestu stundir sem er samt soldið kómískt því ég varð ekki læs fyrr en ég varð ellefu ára. Ég hafði bara ekki tíma til að læra að lesa því ég var svo mikið að leika. Það er sama og með ferðaheiminn að opna sagnaheima kollsins og fara á ókunnar ævintýralendur í huganum er svo gaman. Ég get bara ekki farið að sofa nema glugga fyrst í eina bók. Mest sæki ég í fræðibækur einkum um leikhús og listir en einnig ljóðabækur og skáldsögur. Loks eru það músíkstundirnar sem gefa og bæta andann. Ég er af eitís kynslóðinni svo sú músík fylgir mér enn þó ekki allt. Það er alveg eins með músíkina og vínið eigi eldist allt vel. Það eru þó tveir músík risar sem tróna yfir mínum músíkheimi. Það eru þeir Villi Vill og David Bowie. Síðustu ár hefur þó klassíska tónlistin ratað oftar undir nálina á plötuspilaranum á vinnustofunni og svo hefur óperan verið að koma sterk inn.
Eftir allt þetta orðagjálfur mitt er kannski bara best að hlusta á þögnina eða einsog skáldið Jóhannes úr Kötlum orti:
Ekkert er ljúfara en þögnin
á kyrrum aftni.