Álagður fasteignaskattur á viðmiðunareign Byggðastofnunar var í fyrra hæstur á Ísafirði. Skatturinn er 336.496 kr. í eldri byggð og 308.842 kr. í nýrri byggð og er hvergi hærri á landinu. Í fyrra var lagt á fasteignamat sem gildir frá 31.12. 2023.
Á Egilsstöðum er fasteignaskattur fyrir viðmiðunareign 291.004 kr., þá í Suður-Þingholtum í Reykjavík 290.192 kr. og fimmti hæsti skatturinn er á Sauðárkróki 284.140 kr.
Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2. Byggðastofnun fékk Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til þess að reikna fasteignamat viðmiðunareignarinnar á ýmsum stöðum á landinu.
Hæst er fasteignamat viðmiðunareignarinnar á höfuðborgarsvæðinu og er það að meðaltali um tvöfalt hærra en á Ísafirði, en á móti er álagningarprósenta fasteignaskattsins mun lægri þar en á Ísafirði. Fasteignaskattur er í Garðabæ 0,163% af fasteignamati , 0,165% í Kópavogi og 0,166% á Seltjarnarnsi. Hins vegar var skatturinn 0,54% á Ísafirði, sem er um þrefalt hærri álagningarprósenta.
Fasteignaskatturinn lægstur í Súðavík
Eins og fyrr segir er fasteignaskatturinn á hús og lóð hæstur á landinu öllu á Ísafirði, 336 þúsund króna í eldri byggð og 309 þúsund krónur í nýrri byggð. Það er verulega hærra en t.d. í Fossvoginum í Reykjavík þar sem skatturinn myndi vera 230 þúsund krónur á viðmiðunarhúsið.
Næsthæstur er fasteignaskatturinn á Vestfjörðum 231 þúsund krónur á Patreksfirði sem er liðlega 100 þúsund krónum lægra en i eldri byggð á Ísafirði. Þá kemur Hnífsdalur með 208 þúsund krónur, Bolungavík með 200 þús. kr., Bíldudalur 185 þúsund krónur, Tálknafjörður 183 þúsund krónur, Flateyri 156 þúsund krónur, Hólmavík 149 þúsund krónur, Þingeyri 147 þúsund krónu, Suðureyri 128 þúsund og lestina rekur af vestfiskum byggðarlögum á lista Byggðastofnunar yfir 103 hæstu staðina á landinu Súðavík með 125 þúsund krónur í fasteignaskatt.