„Við munum berjast gegn þessari bókun“

„Ég sem kjörinn fulltrúi hér, sem elska mitt land og elska mitt fullveldi og okkar lýðveldi og okkar lýðræði, okkar sjálfstæði og okkar stjórnarskrá, mun ekki greiða því atkvæði að bókun 35 nái fram að ganga eins og hér virðist eiga að verða að veruleika,“ sagði Inga Sæland, félagsmálaráðherra og formaður Flokks fólksins, í umræðum um skýrslu Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, um bókun 35 við EES-samninginn 13. febrúar en í bókuninni felst að regluverk frá Evrópusambandinu, innleitt í gegnum samninginn, gangi framar löggjöf sem á sér innlendan uppruna.

„Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Jú, hún ætlar að gera það sama og venjulega, leggjast kylliflöt og leyfa Brussel að valta yfir okkur og taka völdin, ekki satt? Persónulega myndi ég vilja fara dómstólaleiðina. Ég tel að það sé alls ekki ljóst hvort við séum komin á þann stað að þörf krefji okkur til að setja forgangsreglu. Ég tel að við eigum að njóta vafans í þessum efnum og höfum enga þörf á því að setja slíka forgangsreglu til að þóknast Brussel og yfirvaldinu þar. Þar fyrir utan tel ég að slík forgangsregla sem um er rætt brjóti í bága við stjórnarskrá,“ sagði Inga enn fremur í umræðunni.„Ég virði stjórnarskrána okkar þó að það sé margoft gengið um hana af hinni mestu léttúð hér á hinu háa Alþingi. Ég skal alveg viðurkenna það. Ef við ætlum að gera þetta og það á að vera einhver bragur á því þá skulum við a.m.k. tryggja það að við séum ekki að ganga á okkar grundvallarlög eins og við munum gera með því að innleiða bókun 35 án þess að taka tillit til þess sem stjórnarskráin okkar kveður á um,“ sagði Inga sömuleiðis í umræðunni. Sama málflutning viðhafði hún ítrekað í ræðu og riti. Daginn eftir umræðuna á Alþingi ræddi Inga málið á Útvarpi Sögu þar sem hún sagði:

„Staðreyndin er sú að þessi bókun 35, að okkar viti og mínu viti, er hreinlega, bara gengur algerlega í berhögg við aðra grein stjórnarskrár lýðveldisins.“ Vísaði Inga þar til fullveldisákvæðis stjórnarskrárinnar. „Við munum berjast gegn þessari bókun 35 eins og kostur er.“ Málið fæli einfaldlega í sér framsal valds og ítrekaði hún að málið færi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. „Erum við ekki búin að beygja okkur nóg fyrir Brussel? Hversu langt á að draga okkur í því að vera fullvalda, sjálfstætt ríki í þjónkun við einhverja bókun sem við í rauninni höfum ekkert við að gera,“ sagði hún.

Hins vegar var allt annað uppi á teningnum þegar Inga mætti á Útvarp Sögu 28. desember þar sem hún var allt í einu komin á þá skoðun að rétt væri að innleiða bókun 35. Sagðist hún hafa verið kjáni í fyrri málflutningi sínum og tíundaði atriði sem stuðningsmenn málsins hafa haldið á lofti og hún áður ítrekað hafnað. Hún nefndi þó stjórnarskrána hvergi til sögunnar. Ekkert nýtt var í þeim málflutningi hennar sem ekki hafði áður komið fram. Til að mynda í skýrslu utanríkisráðherra sem rædd var á Alþingi 13. febrúar. Það eina sem breyttist í millitíðinni er að Inga er nú orðin ráðherra.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

DEILA