Vesturbyggð segir upp hafnasamningi við íslenska kalkþörungafélagið

Bíldudalshöfn.

Í byrjun desember 2024 sagði bæjarráð Vesturbyggðar upp samningi sveitarfélagsins frá 2004 við Íslenska kalkþörungafélagið ehf um hafnaaðstöðu á Bíldudal fyrir kalkþörungaverksmiðju félagsins. Samkvæmt samninginun gilti hann upphaflega til 31. desember 2018 framlengdist sjálfkrafa í sjö ár þar sem honum var þá ekki sagt upp. Gildir samningurinn því til 31. desember 2025.

Samningurinn tekur á skyldum og réttindum samningsaðila varðandi höfnina á Bíldudal sem og gjaldtöku vegna afnota af höfninni.

Halldór Halldórsson forstjóri íslenska kalkþörungafélagsins taldi uppsögnina bara vera eðlilega endurnýjun. „Við eigum eftir að fara í viðræður um breytingar en þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af.“

Elfar Steinn Karlsson, hafnastjóri í Vesturbyggð sagði að samningurinn væri orðinn rúmlega 20 ára gamall og þarfnaðist endurskoðunar, m.a. varðandi gjaldtöku. „Sveitarfélagið  stefnir ekki að því að láta félagið færa sig um set enda er félagið mikilvægur þáttur í atvinnulífi og samfélagi á sunnanverðum Vestfjörðum og verður vonandi áfram um ókomna framtíð.“

DEILA