Nú í byrjun ársins tók Valdimar Víðisson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði við starfi bæjarstjóra og mun hann gegna því út kjörtímabilið sem er fram í júní 2026.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru saman í meirihlutasamstarfi í Hafnarfirði og fór oddviti Sjálfstæðisflokksins með bæjarstjórastarfið frá kosningunum 2022 þar til nú.
Valdimar hefur verið skólastjóri Öldutúnsskóla en lætur af því starfi þegar hann verður bæjarstjóri.
Valdimar Víðisson er Bolvíkingur og ólst þar upp, sonur Víðis Jónssonar skipstjóra og Jónu Arnórsdóttur frá Ísafirði. Bróðir Víðis er Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri hjá Samherja á Akureyri. Afi Valdimars var Jón Eggert Sigurgeirsson, skipstjóri í Bolungavík.
Náfrændi Valdimars er Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, en faðir Almars er Guðmundur Baldur Sigurgeirsson. Jón Eggert og Guðmundur Baldur voru bræður.
Bróðir Almars er svo Sigmar Guðmundsson, alþm og þingflokksformaður Viðreisnar.
Langafi Valdimars var Sigurgeir Sigurðsson, skipstjóri og langamma hans var Margrét Guðfinnsdóttir en þau fluttu frá Folafæti, sem er milli Seyðisfjarðar og Hestfjarðar í Ísafjarðardjúpi, til Bolungavíkur á fjórða áratug síðustu aldar eins og fleiri úr Fætinum.
Fleiri Fótunga má nefna. Pálmi Gestsson, leikari er frændi þeirra bæjarstjóra Almars og Valdimars. Móðir hans var Sigurborg, systir Jóns Eggerts og Guðmundar Baldurs.